MP Straumur verður Kvika

Nýtt merki Kviku. Merkið sýnir stuðlaberg eða stöplaröð og jafnframt …
Nýtt merki Kviku. Merkið sýnir stuðlaberg eða stöplaröð og jafnframt línurit.

MP Straumur fær nýtt nafn frá og með næsta mánudegi. Bankinn mun bera hið íslenska nafn Kvika. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri, segir að með nafnabreytingunni sé verið að stíga síðasta formlega skrefið í sameiningu tveggja öflugra fjármálafyrirtækja.

Höfuðstöðvar Kviku verða í Borgartúni 25.

Í tilkynningu segir að nafnið vísi í óbeislaða orku íslenskrar náttúru; jarðkvikuna sem iðar og hrærist, umbreytir og skapar spennu. „Kvika er öflug hreyfing og snerpa sem hreyfir við kjarna hlutanna. Nægilega kröftug til að gefa þeim nýtt líf. Kvika er samnefnari fyrir óbeislaða orku, kraft og snerpu en einnig öflugar umbreytingar og skapandi hreyfingu.“

Samhliða þessari breytingu mun Kvika taka upp nýtt merki. Merkið sýnir stuðlaberg eða stöplaröð þar sem tveir flekar mætast og hreyfast eins og heimsálfuflekarnir á Íslandi. „Stöplarnir lýsa annars vegar stuðlabergi, einu fegursta tákni íslenskrar náttúru og hins vegar línuriti, helstu táknmynd nútíma viðskiptalífs.“

Í tilkynningu segir að Kvika ætli að veita öðrum íslenskum fjármálastofnunum harða samkeppni á þeim sviðum sem sérhæfing bankans liggur. Kvika sé umbreytingabanki sem sérhæfi sig í alhliða þjónustu við sparifjár- og innlánseigendur á sviði eignastýringar. Þá muni bankinn veita sérhæfða fjármálaþjónustu með áherslu á umbreytingaverkefni.

Ný fjárfestingarstefna

Fyrstur íslenskra banka muni Kvika innleiða nýja fjárfestingastefnu, partnership banking, sem snýr að samvinnu bankans og viðskiptavinarins.

Nafnabreytingin mun taka gildi í kjölfar hluthafafundar á mánudagsmorgun. Í kjölfar fundarins verður vefsíðu bankans og heimabankans breytt. 

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, segir að með nafnabreytingunni sé verið að stíga síðasta formlega skrefið í sameiningu tveggja öflugra fjármálafyrirtækja. „Að vissu leyti er þetta nýtt upphaf fyrir bankann, sem þó byggir áfram á þeim góða grunni sem lagður var í Straumi fjárfestingabanka og MP banka. Við erum afskaplega ánægð með að vera orðin Kvika og vonum að viðskiptavinir verði jafn ánægðir með nýtt nafn og breyttar áherslur sameinaðs banka,“ er haft eftir Sigurði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK