„Þetta er sexí bransi“

Baltasar Kormákur á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í dag.
Baltasar Kormákur á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í dag. Árni Sæberg

„Ég kom með allt mitt til Íslands. Þetta er ekki rómantísk tilvísun í að ég sé einhver þjóðhetja, heldur get ég bara haft miklu meiri áhrif með því að byggja eitthvað upp hérna og skilja eitthvað eftir mig,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur aðspurður um fjárfestingar í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi.

Baltasar fjallaði um fjármögnun stórra bíómynda og möguleika Íslendinga í alþjóðlegum kvikmyndaheimi á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins á Kex hostel í hádeginu í dag. Baltasar ræddi um þau miklu áhrif sem aukinn tengsl við bandaríska kvikmyndaiðnaðinn geta haft á Íslandi.

„Minn draumur var að búa til íslenskt fyrirtæki sem gæti starfað á alþjóðavettvangi og skilað hagnaði,“ sagði Baltasar. „Nú virðist sá draumur vera í sjónmáli. Að hægt sé að færa bandaríska kvikmyndagerð til Íslands,“ sagði hann og vísaði til stórmyndarinnar The Viking sem er næst á dagskrá leikstjórans. 

10 milljarða fjárfesting

Universal Studios hafa keypt réttinn að þríleiknum og fjármagnið sem fer í framleiðsluna nemur um áttatíu milljónum dollara, eða um tíu milljörðum króna. „Ef mér tekst að framleiða þetta á Íslandi held ég að ég geti sagt: Mér tókst það.“.“ 

Þrátt fyrir að brúin yfir Atlantshafið sé orðin áþreifanleg sagði Baltasar hana ekki vera fullkláraða.

Hann segist ætla að berjast fyrir því að allar útitökur í Viking verði teknar á Íslandi. Hins vegar stendur vilji annarra til þess að færa a.m.k. innitökurnar til Bretlands þar sem 25 prósent framleiðslukostnaðar fæst endurgreiddur úr ríkissjóði. Á Íslandi er hlutfallið 20 prósent.

Baltasar benti á að kvikmyndaiðnaðurinn og stjórnvöld væru saman í þessum „bissness“ og vísaði til þess að hann væri t.d. að gera góða hluti með því að koma með stórmyndir, líkt og Viking, til landsins og að þá þyrfti ríkið að gera eitthvað á móti. „Ef þetta er ekki gert get ég nefnilega ekki komið með hana[Viking],“ sagði Baltasar og bætti við að hann hefði þó átt í jákvæðum samskiptum við stjórnvöld sem virtust sýna þessu skilning.

Hann mælti með því að endurgreiðslur yrðu jafnaðar og jafnvel færðar upp í 30 prósent með stærri verkefni. „Ég tel að þetta muni skila verulegum tekjum,“ sagði Baltasar og bætti við að skattaívilnanir séu einna stærsti þátturinn í ákvörðunartöku kvikmyndafyrirtækja um tökustaði.

Ragnheiður Elín Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem var viðstödd fundinn, greip þá til máls og sagði drög að skýrslu frá Hagfræðistofnun liggja í ráðuneytinu og benti á að lög um tímabundnar endurgreiðslur ríkissins vegna kvikmyndagerðar rynnu út á næsta ári. Hún sagði ráðuneytið vera að skoða hvað hafi breyst í þessum málum, og þá ekki bara prósentuna heldur einnig hvort hægt sé að einfalda kerfið.

Fræðsla fyrir fjárfesta

Baltasar vísaði jafnframt til þess að kvikmyndaiðnaðurinn væri óplægður akur fyrir íslenska fjárfesta og sagði kvikmyndagerð geta verið mjög arðbæra fjárfestingu. Hann lýsti því að erfitt hefði verið að afla fjármagns fyrir framleiðslu þáttaraðarinnar „Ófærð“ þrátt fyrir að vera búinn að selja sýningarréttinn víðs vegar um heim. Gamma fjárfestingarsjóður greip hins vegar boltann og fjármagnaði verkefnið. „Það er ekkert því til fyrirstöðu að bankar komi inn með peninga og að aðrir sjái um dreifingu,“ sagði Baltasar og bætti við að auka þyrfti fræðslu um fjárfestingar sem þessar.

Baltasar vísaði jafnframt til þeirra miklu hliðaráhrifa sem kvikmyndaiðnaðurinn hefur á Íslandi með t.d. fjölgun ferðamanna sem koma eftir að hafa séð landslagið bregða fyrir á skjánum auk þess að skapa fleiri störf. „Þetta er sexí bransi, með fullri virðingu fyrir álverum,“ sagði Baltasar. „En lífið á ekki bara að vera álver og þorskur. Þetta þarf líka að vera skemmtilegt.“

Kvikmyndin Everest, úr smiðju Baltasars, hefur slegið í gegn.
Kvikmyndin Everest, úr smiðju Baltasars, hefur slegið í gegn. AFP
Game of Thrones er eitt þeirra stóru verkefna sem tekið …
Game of Thrones er eitt þeirra stóru verkefna sem tekið hefur verið upp hér á landi. AFP
Margir voru mættir til þess að hlýða á Baltasar Kormák.
Margir voru mættir til þess að hlýða á Baltasar Kormák. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka