Útlit er fyrir að erfiðara hafi gengið að skapa störf fyrir háskólamenntaða á síðustu árum eða að fleiri störf þeirra hafi einfaldlega horfið. Þetta er staðan á sama tíma og almennt atvinnuleysi hefur verið á hraðri niðurleið.
Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánuði hefur verið 3,2% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi og úrtakskönnun Hagstofunnar mælir 4,3% atvinnuleysi á sama tíma.
Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að frá janúar 2010 fram til ágúst 2015 hafi skráðum atvinnulausum fækkað um alls 71%. Atvinnulausum með grunnskólapróf hefur fækkað um 76%, atvinnulausum iðnaðarmönnum um 85%, en atvinnulausum með háskólamenntun hefur einungis fækkað um 45%.
Þá er staða kvenna verri en karla. Í ágúst 2015 voru háskólamenntaðar og ófaglærðar konur orðnar álíka margar í hópi atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu. Frá janúar 2010 hafði atvinnulausum konum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 55% en atvinnulausum konum með háskólamenntun einungis um 35%.
Sú þróun heldur því áfram að háskólamenntaðar konur verða sífellt stærra hlutfall atvinnulausra.