Hætta er á því að ofþensla myndist í hagkerfinu fyrir árið 2017 þar sem ójafnvægi gæti skapast með of miklum vexti innlendrar eftirspurnar og launahækkunum umfram það sem innistæða er fyrir.
Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir árin 2015 til 2017.
Framangreind þróun myndi á endanum leiða til samdráttar hagkerfisins og leiðréttingar í formi lækkunar gengis krónunnar, verðbólguskots, aukins atvinnuleysis og rýrnunar kaupmáttar svo eitthvað sé talið af neikvæðum fylgifiskum slíkrar þróunar, sem vel er þekkt hér á landi frá fyrri hagsveiflum.
Í spánni er bent á að hagvöxtur í núverandi uppsveiflu hafi verið fremur hóflegur í sögulegu samhengi en reiknað er með breytingu á því í ár og spáð er talsvert meiri vexti en hingað til hefur mælst í þessari uppsveiflu. Greining Íslandsbanka spáir 4,3% hagvexti í ár og viðlíka hagvexti á næsta ári, eða 4,4%, en talsvert hægari á árinu 2017, eða 2,5%.
Þá segir að þenslueinkenna sé nú farið að gæta á vissum sviðum efnahagslífsins. Eru þau sýnileg t.d. á vinnumarkaði og eignamarkaði, en framundan er að mati Íslandsbanka talsvert hröð hækkun launa og húsnæðisverðs.
Bent er á að nýgerðir kjarasamningar hljóði upp á launahækkanir á næstu árum sem eru talsvert umfram það sem innistæða er fyrir ef litið er m.a. til framleiðnivaxtar og líklegt er að þeir leiði til aukinnar innlendrar kostnaðarverðbólgu.
Óvíst er hins vegar hversu mikið fyrirtæki og stofnanir ná að hagræða til að mæta þessum hækkunum
Til skemmri tíma er talið að áhrif þessara samninga á verðbólgu verði hins vegar greidd niður með hækkun á nafngengi krónunnar og lágri innfluttri verðbólgu.
Því er reiknað er með að verðbólgan muni haldast nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans næsta kastið en aukast síðan þegar líða tekur á spátímabilið og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. Talið er að peningastefnunefnd Seðlabankans muni bregðast við þessari þróun með frekari hækkun stýrivaxta.