Skýrslan Fjármálastöðugleiki hefur verið gefin út af Seðlabanka Íslands en um er að ræða seinna ritið af tveimur þetta árið. Til stóð upphaflega að gefa skýrsluna út 6. október en því var frestað á síðustu stundu. Ástæðan var sú að viðauki átti að fylgja henni um stöðugleikaskilyrði vegna nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja en það reyndist ekki mögulegt þar sem ekki hafði tekist „að ljúka því samráðs- og kynningarferli sem reiknað var með að yrði lokið áður en ritið yrði birt,“ eins og sagði í tilkynningu frá bankanum. Skýrslan er nú birt án viðaukans.
„Til stóð að birta viðauka við ritið þar sem greint yrði frá tillögum kröfuhafa um hvernig þeir hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og mati á heildaráhrifum mögulegra nauðasamninga á grundvelli þeirra. Ekki verður unnt að ljúka mati á undanþágubeiðnum einstakra búa gömlu bankanna fyrr en endanleg gögn sem haft gætu áhrif á matið liggja fyrir. Seðlabankinn mun birta sérstaklega niðurstöður mats á áhrifum undanþágubeiðnanna á greiðslujöfnuð, stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika þegar greiningu bankans er lokið og hún hefur verið kynnt fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd. Sérstakur kynningarfundur fyrir fréttamenn verður haldinn af því tilefni,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.