„Bankinn tilbúinn um nokkurn tíma“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka mbl.is/Ómar Óskarsson

„Bankinn hefur verið tilbúinn til sölu um nokkurn tíma og það hefur verið áhugi á bankanum hjá erlendum aðilum,“ segir í stuttu svari Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um áhrifin sem breytt eignarhald Íslandsbanka muni hafa á söluferli bankans.

Líkt og fram hefur komið hefur slitastjórn Glitn­is lagt til nýja tillögu að stöðugleikaframlagi er felur í sér að öllu hluta­fé ISB Hold­ing ehf., sem er eig­andi 95% hluta­fjár Íslands­banka hf., verði afsalað til stjórn­valda.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í dag í samtali við mbl að hann sæi það ekki sem framtíðarlausn að ríkið fari með allt eignarhald bæði í Landsbankanum og Íslandsbanka.

Frétt mbl.is: Mjög jákvætt mál

Birna segist líta jákvæðum augum á þessar breytingar. „Við höfum áður verið í eigu ríkisins og sjáum ekki fram á að breytt eignarhald breyti okkar stöðu og við lítum á þetta eignarhald sem tímabundið,“ segir Birna og bætir við að eigið fé bankans sé sterkt og muni ekki lækka um áramót eins og áður var gert ráð fyrir.

Eigið fé Íslandsbanka nam um 185 milljörðum króna í lok júní 2015 og er helsta breytingin frá fyrri tillögu um stöðugleikaframlag að eiginfjárhlutfall bankans muni ekki lækka þar sem ekki er gert ráð fyrir sérstökum arðgreiðslum frá bankanum.

Birna segir að tillögur kröfuhafa Glitnis hafi í raun og veru engin áhrif á daglegan rekstur bankans. „Við munum halda ótrauð áfram í að þjónusta okkar viðskiptavini,“ segir hún.

Hún ítrekar að tillögurnar séu háðar því að nauðasamningar náist og því verða engar breytingar fyrr en í fyrsta lagi um áramót. Birna segir starfsmenn vera vel upplýsta innanhús og að viðskiptavinir munu ekki finna fyrir neinum breytingum

Frétt mbl.is: Ríkið eignast Íslandsbanka

Íslandsbanki að Kirkjusandi
Íslandsbanki að Kirkjusandi mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK