Bollakökur blandaðar saltlakkrís og tyrkneskum pipar fengu góðar viðtökur og seldust grimmt í kökusjoppunni Sautján sortum á Grandagarði í Reykjavík sem opnuð var um helgina. „Við leggjum okkur eftir því að kökurnar hafi bragð og útlit heimabaksturs og hér vinnum við allt frá grunni. Vörumerkjakökur kunna að vera góðar, en við finnum vel að fólk leitar eftir því bragði og tilfinningu sem fylgir jafnan kökum sem bakaðar eru í eldhúsinu heima,“ segir eigandinn, Auður Ögn Árnadóttir.
Hún er eigandi kökusjoppunnar sem dregur nafn sitt af frægum lýsingum í Kristnihaldi undir Jökli, skáldsögu Halldórs Laxness.
Sautján sortir eru viðbót og enn ein skrautfjöðrin í þá flóru matarbúða sem nú eru komnar á hafnarsvæðið. Þar eru fyrir ísbúð, veitingastaðir, verslun með heimaunnar afurðir og fleira slíkt. Og nú eru það kökurnar sem bakaðar eru eftir uppskriftum Auðar og Írisar Bjarkar Óskardóttur.
„Við höfum á okkar blöðum um 130 uppskriftir og þeim fjölgar og þetta þróast áfram. Það er auðvitað mjög breytilegt frá degi til dags eftir hvaða uppskriftum við bökum. En þær eru sjaldnast fleiri en sautján, nafninu samkvæmt,“ segir Auður Ögn sem fyrir á og rekur Salt eldhús – þangað sem fólk getur mætt og fengið leiðsögn í matargerð; bæði í bakstri og hefðbundinni matargerð.
Stefna Faxaflóahafna hefur verið sú að gæða Grandasvæðið lífi með nýrri starfsemi. Samkvæmt því var auglýst eftir fleiri leigjendum í verbúðirnar sl. vor og sendi Auður þá inn umsókn sem var samþykkt.
„Viðtökurnar síðasta laugardag voru frábærar. Við opnuðum um hádegi og klukkan fimm var ekki arða eftir. Þá lokuðum við í klukkutíma og bökuðum nýjan skammt. Fólk er sannarlega spennt fyrir ýmsum nýjungum, en vill líka það kunnuglega. Heimabökuð marengstera með súkkulaði, rjóma og jarðarberjum er nokkuð sem stendur alltaf fyrir sínu.“
Hjá Sautján sortum er samsetningin á bakstri dagsins aldrei hin sama. Fólk getur aldrei gengið að sínu eftirlæti vísu, en það er þó alltaf eitthvað spennandi í boði. Þá er einnig á borðum bakstur án eggja, mjólkur og annarra slíkra ofnæmisvalda. Sömuleiðis býðst að senda inn uppskriftir til dæmis í gegnum Facebook og reynt er að bregðast við slíku eftir föngum, segir Auður Ögn. Þá eru drykkirnir á Sautján sortum sérvaldir, það er annaðhvort kaffi eða köld mjólk sem getur til dæmis verið með súkkulaði-, jarðarberja- eða vanillubragði.
„Matarmenning landans hefur breyst mikið núna síðustu ár. Fólk leitar meira en áður til hins heimagerða og upprunalega. Margir þeirra matarstaða sem hafa verið opnaðir á síðustu árum starfa í þessum anda og fjölgun ferðamanna sem til landsins koma skapar markaðinn,“ segir sautján sorta konan að síðustu.