Uppsveiflan frábrugðin þeirri síðustu

Hrafn Steinarsson frá greiningardeild Arion banka fjallaði um líkindi hagsveiflunnar …
Hrafn Steinarsson frá greiningardeild Arion banka fjallaði um líkindi hagsveiflunnar í dag og í fyrri uppsveiflu. Kristinn Ingvarsson

Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu meðal þróaðra ríkja, en mikilvægt er að hagstjórn verði háttað skynsamlega á komandi árum til að tryggja að ekki verði ofþensla í hagkerfinu.

Helstu áhættuþættir eru aukin spenna á vinnumarkaði, versnandi verðbólguhorfur, óvissa tengd afnámi fjármagnshafta og aukinn slaki í ríkisfjármálum. Því mun reyna á miðlun peningastefnunnar þegar fram í sækir. 

Þetta kom fram á morgunfundi Arion banka í morgun þar sem hagspá deildarinnar til ársins 2018 var kynnt. Greiningardeild spáir því að hagvöxtur í ár verði 5,4%, sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan 2007, en að hagvöxtur áranna 2016-2018 verði nokkru minni og nálægt langtímameðaltali.

Gert er ráð fyrir að vöxturinn verði að mestu leyti drifinn áfram af vexti í fjárfestingu og einkaneyslu. Talið er að ferðamannastraumur verði ein helsta driffjöður vaxtar í útflutningi á komandi árum. Þó er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta verði lítillega neikvætt á næstu tveimur árum þar sem gert er ráð fyrir talverðum vexti í innflutningi. Talið er að viðskiptajöfnuður verði engu að síður jákvæður á spátímabilinu, að gefnu föstu gengi.

Að mörgu leyti frábrugðið síðustu uppsveiflu

Á fundinum var einnig farið yfir að hvaða leyti núverandi uppsveifla líkist þeirri síðustu en margir hagvísar nú eru á svipuðu róli og árið 2004.

Má þar m.a. nefna kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar, framleiðsluslaki er að breytast í framleiðsluspennu og hefur störfum farið ört fjölgandi samhliða kaupmáttaraukningu. Þegar nánar er rýnt í tölurnar er staða hagkerfisins þó frábrugðin árunum 2004 til 2007 að mörgu leyti.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið hægt undanfarin ár og er töluvert undir fyrra hámarki frá 2007. Einnig eru skuldir þeirra sem skulda íbúðalán hærri sem hlutfall af ráðstöfunartekjum en var árið 2007. Þar að auki má nefna að fjöldi jákvæðra er enn töluvert minni en fjöldi neikvæðra í væntingakönnunum Gallup og er það merki um meiri varfærni en var fyrir áratug síðan. Allt þetta hefur áhrif á einkaneyslu og er talið að vöxtur einkaneyslu framundan verði því hóflegri en í fyrri hagsveiflu.

Engu að síður eru ýmsir áhættuþættir til staðar og ber þar helst að nefna að mikla uppsafnaða fjárfestingaþörf. Þá eru einnig merki um aukinn slaka í ríkisfjármálum og er mikilvægt að hið opinbera tímasetji umfangsmiklar framkvæmdir á komandi árum þannig að þær eigi sér ekki stað á sama tíma og stórar framkvæmdir í einkageiranum.

Hækkun stýrivaxta bítur ekki

Ekki eru enn talin merki um að hækkun stýrivaxta sé farin að bíta að teljanlegu leyti, og var sem dæmi nefnt að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur farið hratt lækkandi og hafa vextir á íbúðalánum lækkað í kjölfarið.

Margt bendi því til þess að ganga þurfi hægt um gleðinnar dyr á komandi árum og að skynsamleg hagstjórn ráði úrslitum um hvort þensla í hagkerfinu verði meiri en gert er ráð fyrir í hagspánni.

Hér og hér má skoða nánari hagspá Arion.

Greiningardeild Arion banka spáir því að hagvöxtur í ár verði …
Greiningardeild Arion banka spáir því að hagvöxtur í ár verði 5,4% mbl.is/Eggert
Skynsamleg hagstjórn mun ráð úrslitum um hvort þensla í hagkerfinu …
Skynsamleg hagstjórn mun ráð úrslitum um hvort þensla í hagkerfinu verði meiri en gert er ráð fyrir í hagspánni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK