Vandræði í verksmiðju Nestlé valda því að ekki verður hægt að mæta eftirspurn eftir Quality Street konfekti fyrir jólin. Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir ljóst að konfektið þar verði uppselt fyrir jól en Ölgerðin segist eiga nóg til.
Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, var nýkomin frá Frakklandi þar sem hún m.a. átti fund með forsvarsmönnum Nestlé um málið, þegar mbl náði af henni tali. Hún segir konfektið vera framleitt í gamalli og afkastalítilli vél sem einfaldlega virkar ekki sem skyldi um þessar mundir.
Hún bendir á að Nestlé séu nánast þeir einu sem ennþá framleiða karamellur í umbúðum með snúningi á endanum og snýr vandamálið að þeirri vél.
Þessi vél framleiðir allt Quality Street konfekt og er því ljóst að vandamálið er útbreitt og skortur yfirvofandi víða. „Þeir sjá fram á að geta ekki annað eftirspurn og því verður minna um Quality Street í sölu fyrir jólin,“ segir Þorgerður.
Fríhöfnin hefur alltaf keypt konfektið beint frá Nestlé og Þorgerður bætir við að fleiri molar gætu verið til í einhverjum vöruhúsum í Evrópu. Hún segir Fríhöfnina hafa átt kost á því að fá meira magn annars staðar frá en hins vegar hafi fyrningarfrestir á konfektinu ekki verið nógu góðir og var því ákveðið að sleppa því.
Þorgerður segir að Fríhöfnin fái eins mikið og Nestlé getur afhent en telur ljóst að það muni ekki duga til.
Aðspurð um tjónið segir hún ekki sé búið að meta það til fulls en gerir ráð fyrir að stærsti hluti sölunnar færist yfir á aðrar vörur.
Ölgerðin sér um sölu á Quality Street innanlands og samkvæmt upplýsingum þaðan tryggði fyrirtækið sér nóg af konfekti fyrir ári síðan. Vandamálið ætti því ekki að hafa áhrif á innanlandsmarkaðinn fyrir utan Fríhöfnina.
Nestlé eignaðist Quality Street er fyrirtækið keypti Rowntree árið 1988. Quality Street hefur löngum verið með söluhæsta súkkulaði á Bretlandseyjum og voru mest seldu „twist-wrap” sælgætismolarnir frá 2005 til og með 2007.