Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, gæti þurft að sætta sig við töluverða launalækkun ef bankinn færist í hendur ríkisins. Hún var með rúmlega tvöfalt hærri laun en Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, á síðasta ári.
Í svari Fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is segir að fari svo að ríkið eignast meirihluta í Íslandsbanka, þá fellur það undir kjararáð að ákveða laun og starfskjör bankastjóra samkvæmt lögum um kjararáð. Í lögunum segir m.a. að kjararáð eigi að gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum sem það ákveður.
Ráðuneytið vísar þá jafnframt til ákvörðunar kjararáðs um laun og starfskjör bankastjóra Landsbankans, en úrskurðir um efnið eru þrír; tveir frá árinu 2010 og einn frá 2013.
Samkvæmt ársskýrslu Landsbankans námu launagreiðslur til Steinþórs Pálssonar, bankastjóra, alls 18,5 milljónum króna á síðasta ári, auk 2,1 milljóna króna í hlutabréfatengdar greiðslur. Það gerir alls 20,6 milljónir króna á árinu eða um 1,7 milljónir króna á mánuði
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk hins vegar 38,5 milljónir króna í laun á árinu auk 4,8 milljóna í árangurstengdar greiðslur. Samtals eru það 43,4 milljónir króna á árinu eða 3,6 milljónir króna á mánuði.
Laun Birnu eru því rúmlega tvöföld laun Steinþórs.
Líkt og fram hefur komið hefur slitastjórn Glitnis lagt til nýja tillögu að stöðugleikaframlagi er felur í sér að öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95% hlutafjár Íslandsbanka hf., verði afsalað til stjórnvalda. Tillögurnar eru þó háðar því að nauðasamningar náist og því verða engar breytingar fyrr en í fyrsta lagi um áramót.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur þá jafnframt sagt það koma til álita að sameina Íslandsbanka og Landsbanka, komi til þess að tillagan nái fram að ganga.
Ekki er þá ljóst hvað yrði um störf fyrrnefndra bankastjóra.
Frétt mbl.is: Bankatoppar fengu rúman milljarð