Riðuveiki á Íslandi stendur í Kínverjum

Tollar á 335 tollskrárnúmerum hafa ekki verið felldir niður í …
Tollar á 335 tollskrárnúmerum hafa ekki verið felldir niður í Kína með samningnum. Flestar vörurnar eru ekki mikilvægar útflutningsvörur, en á því eru þó undantekningar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína hefur stuðlað að auknum viðskiptum ríkjanna, en gífurleg tækifæri eru enn ónýtt. Ýmsir hnökrar eru enn á framkvæmd samningsins, en stjórnvöld beggja ríkja vinna að því að draga úr þeim. Þetta er á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, Félags atvinnurekenda (FA) og sendiráðs Alþýðulýðveldisins Kína í gær.

Í ítarlegri samantekt af málþinginu, sem finna má á vef FA, kemur fram að Bergþór Magnússon, lögfræðingur á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins, hafi nefnt sem dæmi um hnökrana að sótt hefði verið um leyfi fyrir íslenskt lambakjöt til að reyna að koma því á markað í Kína, en treglega hefði gengið að fá það samþykkt. Kínversk stjórnvöld hefðu áhyggjur af riðuveiki í sauðfé. Íslensk stjórnvöld hefðu bent á að riðuveiki væri nánast úr sögunni, en það hefði spillt fyrir að riðuveikitilfelli hefðu komið upp á ný fyrr á þessu ári eftir nokkurra ára hlé.

Til málþingsins var efnt í tilefni af 20 ára afmæli ÍKV 27. október. Yfirskrift þess var „Reynslan af fríverslunarsamningi Íslands og Kína fyrsta árið“ en samningurinn tók gildi 1. júlí 2014. Ársæll Harðarson, formaður ÍKV, benti á það í inngangserindi sínu að Ísland hefði verið fyrsta Evrópuríkið til að gera fríverslunarsamning við Kína og eingöngu Sviss hefði bæst í hópinn.

Liu Mingming, viðskiptafulltrúi kínverska sendiráðsins, benti á tölur um að viðskipti milli ríkjanna hefðu aukist á milli fyrri og seinni hluta árs 2014 og vöxturinn í Kínaviðskiptum væri meiri en að meðaltali í utanríkisviðskiptum Íslands. Hann sagði unnið ötullega að því í samstarfi íslenskra og kínverskra stjórnvalda að taka á misfellum í framkvæmd samningsins og nefndi sérstaklega að unnið væri í því að fjölga sjávarafurðum á svokölluðum útflutningslista, en það er listi yfir afurðir sem kínversk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið leyfi fyrir að séu fluttar inn til landsins.

Liu sagðist telja gífurleg ónýtt tækifæri í samningnum; varla væri farið að grilla í þann árangur sem gæti náðst.

 Bergþór benti á að fríverslunarsamningurinn veitti aðgang að stærsta markaði í heimi, þar sem væri jafnframt mikill hagvöxtur og vaxandi eftirspurn. Á Kínamarkaði væru hærri tollar og á fleiri vörum en víða annars staðar. Samningurinn veitti íslenskum fyrirtækjum því forskot á fyrirtæki í samkeppnislöndunum.

Hins vegar væru ekki allar niðurfellingar tolla á íslenskum útflutningi til Kína komnar til framkvæmda. Tollar hefðu verið felldir niður á til dæmis grásleppu, karfa og lýsi en tollar á mikilvægum útflutningsvörum á borð við fryst loðnuhrogn, þorsk, ýsu og rækju yrðu felldir niður í áföngum til ársins 2019.

Þá væru ekki öll vandamál við framkvæmd samningsins leyst. Enn þyrfti innflutningsleyfi og uppfylla heilbrigðisreglur, sem gæti verið flókið ferli. Í þriðja lagi sagði Bergþór að það tæki tíma að byggja upp viðskiptatengsl og vinna markaði fyrir íslenskar vörur í Kína.

Bergþór benti ennfremur á að einn mögulegur ávinningur af fríverslunarsamningnum væri að hann ýtti undir erlendar fjárfestingar á Íslandi; erlend fyrirtæki gætu séð sér hag í að setja upp starfsstöðvar hér og gera vöru sína þannig íslenska og tollfrjálsa inn á Kínamarkað. Hann nefndi sem dæmi að fríverslunarsamningurinn hefði vegið þungt í ákvörðun Silicor um að reisa verksmiðju í Hvalfirði og fleiri slík mál væru í vinnslu.

Ítarlega samantekt um málþingið má lesa á vef Félags atvinnurekenda.

Frummælendur á málþinginu. Frá vinstri: Birgir Bjarnason, Sigtryggur Rósmar Eyþórsson, …
Frummælendur á málþinginu. Frá vinstri: Birgir Bjarnason, Sigtryggur Rósmar Eyþórsson, Ársæll Harðarson, Jónína Bjartmarz fundarstjóri, Liu Mingming, Bergþór Magnússon og Jóhann Freyr Aðalsteinsson. Af vef FA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK