Skeljungur hf. og Sjávarkaup hf., fyrir hönd fjölda sjávarútvegsfyrirtækja, hafa undirritað rammasamning um kaup á a.m.k. 25 milljónum lítra af eldsneyti á samningstímanum. Samningurinn tekur gildi 1. nóvember og gildir út 30. júní 2017, með möguleika á framlengingu.
Samningurinn var undirritaður í kjölfar útboðs Sjávarkaupa hf. um kaup á eldsneyti en um var að ræða eitt stærsta útboð á olíu sem fram hefur farið hér á landi, segir í fréttatilkynningu. Í útboðsferlinu var fjórum olíufélögum gefinn kostur á því að bjóða í kaupin en niðurstaða útboðsins var sú að gengið var til samninga við Skeljung hf.
Sjávarkaup hf. er þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í útboðum, innkaupum, innflutningi og eftirfylgni útboða fyrir einkafyrirtæki. Félagið er í eigu nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja og einstaklinga.
Markmið Sjávarkaupa hf. er að lækka rekstrarkostnað umbjóðenda sinna. Því markmiði hyggst Sjávarkaup hf. m.a. ná með útboðum á kaupum á vörum og þjónustu, þar sem styrkur magninnkaupa er nýttur til fulls til að knýja fram sem hagstæðast verð, segir í tilkynningunni.