Gjaldþrot félagsins DGN ehf., sem er eitt þeirra félaga er tengdist rekstri pítsustaðarins Hróa Hattar, hljóðar upp á rúmar 534 milljónir króna. Ekkert fékkst greitt upp í almennar og eftirstæðar kröfur en samtals fengust 86,5 milljónir greiddar í veðkröfur, eða 16,26%.
Skiptum var lokið hinn 23. október. Röð gjaldþrota hefur einkennt reksturinn.
Greint er frá lokum gjaldþrotaskiptanna í Lögbirtingarblaðinu í dag. Félagið var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði héraðsdóms Reykjaness hinn 13. september 2012.
Félagið kom við sögu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þar var farið yfir tap Sparisjóðsins í Bolungarvík vegna afskrifta á 250 milljóna króna lánum til pítsustaða í Reykjavík. Samkvæmt skýrslunni fór sparisjóðurinn í sumum tilfellum út fyrir þær heimildir sem útlánareglur gáfu honum.
Gísli Ingason og Dagbjartur Bjarnason, voru eigendur félagsins og áttu einnig félagið H.H. ehf., sem hélt utan um rekstur Hróa Hattar. Í gegnum félagið DNG ehf. keyptu þeir fasteignir pítsustaðarins á Smiðjuvegi í Kópavogi og í Hafnafirði.
H.H. ehf. keypti vörumerki og rekstur pítsustaðarins á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2007 og voru kaupin fjármögnuð með sameiginlegu láni nokkurra sparisjóða í erlendri mynt. Hlutur sparisjóðs Bolungarvíkur var tæplega 40 milljónir.
Sparisjóðurinn tók síðar þátt í fleiri lánum til H.H. og DGN ehf. og í september 2007 fékk DGN ehf. t.a.m. 160 milljóna króna í erlendum myntum til kaupa á fyrrnefndum fasteignum Hróa Hattar. Lánin hækkuðu síðan verulega við hrunið.
Hrói Höttur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 19. janúar 2012 og DGN ehf. 13. september 2012.