Vaxtahækkun þvert á allar spár

Greiningardeildir bankanna spáðu óbreyttum stýrivöxtum.
Greiningardeildir bankanna spáðu óbreyttum stýrivöxtum. Samsett mynd/Eggert

Greiningardeildir stóru viðskiptabankanna þriggja spáðu allar óbreyttum stýrivöxtum sökum þess að verðbólguhorfur hafa batnað. Seðlabankinn gekk þvert á allar spár og hækkaði stýrivexti í morgun.

Greining Íslandsbanka bendir þó á að Peningastefnunefndin hafi breytt framsýnni leiðsögn sinni og mildað þann vaxtahækkunartón sem mátti áður finna í yfirlýsingu nefndarinnar. Segir nefndin nú að sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafi gefið svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Áður sagði í yfirlýsingunni að það væri aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt.

Nefndin ræddi þá sérstaklega í yfirlýsingu sinni um að mótun peningastefnunnar muni ráðast af þróun lausafjárstöðu í tengslum við losun fjármagnshafta og af því hvort öðrum stjórntækjum hagstjórnar verði beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum.

Greining Íslandsbanka bendir á að það sé nýlunda að sérstaklega sé fjallað um áhrif losunar fjármagnshafta á lausafjárstöðu í yfirlýsingunni, og er það talist helgast af þeirri framvindu sem orðin er, og þá lausn sem komin er fram um slit búa gömlu bankanna.

Seðlabankinn lækkaði verðbólguspá sína til skemmri tíma litið umtalsvert í morgun og spáir hann nú 2,3% verðbólgu á síðasta fjórðungi þessa árs en hafði í ágúst spáð að verðbólga yrði komin upp í 3,8% á yfirstandandi fjórðungi. 

Launakostnaður að hækka hratt

Launakostnaður á framleidda einingu mun í ár hækka um 9 prósent í ár og um 8,1 prósent á næsta ári samkvæmt nýrri spá bankans. Mun síðan draga úr hækkun launakostnaðar þegar líður á spátímabilið.

Er þetta langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans og er stór þáttur í því af hverju bankinn reiknar með því að verðbólgan muni aukast á næstunni og fara yfir verðbólgumarkmiðið þegar kemur fram á næsta ár.  

Virkir stýrivextir muni hækka um 1,5%

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar í morgun að spá bankans byggði á þeirri forsendu að aðhald peningastefnunnar komi til með að aukast á spátímabilinu. Án þessa aukna aðhalds mun verðbólgan verða meiri á spátímabilinu. Einnig er byggt á því að aðhaldið í opinberum fjármálum verði minna á næsta ári en á þessu ári. 

Í síðustu stýrivaxtaspá Íslandsbanka var reiknað með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta á næsta ári.

Nú telur Íslandsbanki að við það muni væntanlega bætast aukið peningalegt aðhald þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins. Sú breyting mun að mati bankans verða ígildi um 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Þar með muni virkir stýrivextir hækka um 1,5 prósentustig á næsta ári

Hér má sjá spár greiningardeilanna:

Spá Íslandsbanka.

Spá Arion banka.

Spá Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK