„Ég er þeirrar skoðunar, að þá verði hægt að gera þetta mjög hratt, og jafnvel bara: „Bing, bang“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, aðspurður um afnám gjaldeyrishafta á almenning. Endurmeta þarf stöðuna eftir aflandskrónuútboðið í janúar.
Þetta kom fram í máli hans á fundi Peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra boðaði stór skref í losun hafta í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag og nefndi fyrrnefnt útboð sem viðmiðunartíma. Ef það gengur vel sé ekkert að kalla á höft. Þá sagði hann að lífeyrissjóðunum yrði mögulega hleypt fyrr út úr landi.
Már sagði að eftir útboðið þyrfti einfaldlega að skoða stöðu bankanna og viðskiptaafganginn og taka næstu skref í samræmi við það. T.d. þarf að tryggja að lausafjárstaða bankanna sé nægilega góð þar sem almenningur gæti farið að ganga í innistæður og fara með töluvert fjármagn úr landi. Hann benti þó á að Seðlabankinn hefði kortlagt þetta og virðast slíkar hreyfingar ætla að verða innan viðráðanlegra marka. „Bankar þurfa þó að fara varlega á næstu mánuðum,“ sagði Már.
Már nefndi erindið sitt „Peningastefna á krossgötum“ og vísaði til áskoranna framundan, þ.e. spennu í þjóðarbúskapnum, tryggingar efnahagslegs stöðugleika, launahækkana og greiðslujafnaðarvandans. Hann sagði að Íslendingar væru í raun að færast úr einu hagkerfi í annað.
„Við sitjum á viljugum fola sem við erum að reyna hemja, frekar en einhverri letibikkju,“ sagði Már þegar hann varði stýrivaxtahækkunina í gær og sagði nauðsynlegt að vera á bremsunni m.a. í ljósi fyrrnefndra þátta. „Það er óvarlegt að hagstjórn og viðbúnaður reiði sig á það ólíklega,“ sagði Már.
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, tók undir stýrivaxtahækkunina og sagði hana í raun hafa verið „aumingjalega“. „Ég hefði hækkað um fimmtíu punkta,“ sagði Ásgeir og bætti við að hækkunin hefði augljóslega verið gerð til að senda vinnumarkaðnum skýr skilaboð um að klára sín mál. Þá sagði hann að háir vextir væru nauðsynlegir þegar höftum verður aflétt.
Ásgeir Jónsson ræddi einnig um stöðu bankanna eftir höft og sagði þetta vera einstakt tækifæri til þess að breyta uppbyggingu þeirra og tálga þá niður. Þá sagðist honum ekki lítast vel á hugmyndir um samfélagsbanka og sagði ríkiseignarhald ekki koma í veg fyrir áhættu. Fókusinn ætti frekar að vera á betra fjármálaeftirlit.
Töluverð umræða myndaðist um ný stýritæki fyrir Seðlabankann og var Már m.a. spurður hvort þetta væri ekki heldur „kínversk hagstjórn“. Már sagði að ekki væri verið að tala um óendanlega fjölgun stýritækja heldur bara nokkur tæki í viðbót. „Hitt sem var gekk ekki. Nú erum við að prófa þetta og auðvitað mun sagan bara dæma um árangurinn,“ sagði Már og bætti við að nauðsynlegt væri að koma fyrir ofris og skyndilegan skell í kjölfarið.
Í þessu samhengi ræddi Már um aukna ásókn erlendra fjárfesta í ríkisbréf og lækkun líftímaálags á óverðtryggða skuldabréfamarkaðnum. Enda eru vextir hærri hér á landi og efnahagsumsvif meiri en í flestum öðrum iðnríkjum ásamt því að gengi krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt og lánshæfismat ríkissjóðs batnað.
Ein helsta birtingarmynd þessa er sú að vaxtaferillinn flest út og verður jafnvel niðurhallandi þrátt fyrir að almennt sé vænst frekari hækkunar skammtímavaxta á komandi misserum.
Þessi þróun torveldar miðlun peningastefnunnar um vaxtafarveginn og beinir henni í auknum mæli um gengisfarveginn. Már sagði hann vera að mörgu leyti skrykkjóttari en vaxtafarveginn þar sem gengið hefur tilhneigingu til að ofrísa með tilheyrandi hættu á snarpri leiðréttingu.
Þessi þróun geti síðan átt neikvætt samspil við áhættu í fjármálakerfinu eins og gerðist hér á árunum fyrir fjármálakreppuna auk þess sem veikari miðlun í gegnum vaxtafarveginn torveldar mat á verðbólguvæntingum.
Því væri þörf á frekari stýritækjum.
Már vísaði í morgun til þess að vaxtafarvegurinn gæti algjörlega stíflast í litlum hagkerfum þar sem fjármagnsflutningar verða hindrunarlausir og smá vaxtamunur býr til óendanlegt fjármagnsflæði. Líkt og áður segir fer þá miðlun peningastefnunnar eftir gengisfarveginum og getur sveiflast með straumum spákaupmennsku. Hann sagði varúðarreglur eiga að draga verulega úr áhættu bankanna og er það hlutverk fjármálastöðugleikaráðs að vaka yfir því. Þetta muni auðvelda framkvæmd peningastefnunnar.