365 tapaði 1,3 milljörðum á síðasta ári

Fjölmiðlafyrirtækið 365 tapaði rúmlega 1,3 milljörðum króna á síðasta ári en nokkur viðsnúningur hefur verið á rekstrinum á fyrri hluta þessa árs þar sem hagnaður nam 106 milljónum króna. Stóran hluta tapsins á síðasta ári má rekja til kostnaðar vegna sameiningar, endurskipulagningar, niðurfærslu dagskrárbirgða og sérstakra afskrifta sem samtals nema rúmum einum milljarði króna.

Í afkomutilkynningu félagsins segir að tekjur á fyrri helmingi þessa árs hafi verið 5,6 milljarðar króna og nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 574 milljónum króna. Tekjurnar á síðasta ári námu rúmum 10 milljörðum króna og var rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði að teknu tilliti til einskiptisliða 644 milljónir króna.

Töpuðu skattamáli og ætla með það lengra

Í tilkynningunni er greint frá því að yfirskattanefnd hafi úrskurðað að 365 hafi verið óheimilt að draga vaxtagjöld frá skattskyldum tekjum á árunum 2009 til 2014. Greiðsluáhrif vegna þessa nema 372 milljónum króna. 365 hefur greitt álagninguna en stjórn félagsins hefur ákveðið að fara með málið fyrir dómstóla og reyna að fá álagningunni hnekkt. 

Málið snýst um niðurfellingu vaxta á lánum sem vegna öfugs samruna Rauðsólar ehf. og 365 miðla hinn 1. janúar 2009. Árið 2008 keypti Rauðsól, einkahlutafélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fjölmiðlahluta 365 miðla af 365 ehf. á 1,5 milljarða króna með yfirtöku á skuldum félagsins. Nafni gamla 365 var síðar breytt í Íslenska afþreyingu sem óskaði eftir gjaldþrotaskiptum árið 2009. Skiptum var lokið árið 2012 og fengu kröfuhafar 467 milljónir upp í tæplega 4,2 milljarða króna kröfur.

Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er aðaleigandi 365 miðla í dag.

Undirbúa mögulega skráningu í Kauphöll

Í tilkynningunni er greint frá því að félagið hafi gengið til samninga við Arion banka eftir útboð á öllum bankaviðskiptum sínum en það var liður í því að undirbúa félagið betur fyrir mögulega skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. 

Haft er eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, að viðsnúningurinn á fyrri helmingi ársins sé ánægjulegur. Hann segir árið 2014 hafa verið um margt sérstakt. „365 hafði þá ný hafið starfsemi á fjarskiptamarkaði, sem hafði tímabundið í för með sér aukinn kostnað fyrir félagið.“

Hann bendir á að tekjuvöxtur hafi verið töluverður, eða 13 prósent, í áskriftarsölu sjónvarps, auglýsingasala hafi verið undir væntingum en aukist um þrjú prósent, fjarskiptatekjur hafi aukist umtalsvert eða um 877 prósent milli ára í kjölfar sameiningarinnar við Tal.

Þá segir hann að mörgum mikilvægum verkefnum hafi verið lokið á síðasta ári og að þau hafi styrkt rekstrargrundvöll 365 til lengri tíma. „Þar ber fyrst að telja sameining við Tal sem rennir enn frekari stoðum undir fjarskiptarekstur félagsins.“

Gengið var frá endurfjármögnun félagsins og á árinu voru sameinaðir A- og B-flokkar hlutafjár og hlutafé aukið í nýjum B-flokki hlutafjár um 445 milljónir króna.

Sævar bendir á að gripið hafi verið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða, skorið niður í mannahaldi og yfirstjórn sem og að kostnaðarlækkunum hafi verið náð fram í samningum við birgja. Horfur í rekstri séu góðar.

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Ingibjörg er aðaleigandi 365 …
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Ingibjörg er aðaleigandi 365 miðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka