Stefna að dreifðu eignarhaldi á Arion banka

Samkomulag Kaupþings og íslenska ríkisins miðar að því að Arion …
Samkomulag Kaupþings og íslenska ríkisins miðar að því að Arion banki verði seldur innan þriggja ára. mbl.is/Eggert

Fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance hafa að undanförnu unnið að því að koma saman hópi fjárfesta sem gera muni tilboð í hlut Kaupþings í Arion banka. Slitabúið heldur á 87% hlut í bankanum á móti þeim 13% sem ríkissjóður á. Bæði fyrirtækin leggja nú allt kapp á að fá stærstu lífeyrissjóði landsins að borðinu. Ólíklegt er talið að fyrirtækin geti myndað fjárfestahóp sem boðið geti í bankann án aðkomu tveggja til þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins. Áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins innan úr lífeyrissjóðakerfinu herma að enginn hinna stóru lífeyrissjóða hafi skuldbundið sig til þátttöku hjá öðru hvoru fyrirtækinu en forsvarsmenn sjóðanna hafa fundað með þeim á umliðnum vikum.

Virðing vill sama verð fyrir alla

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stefnir Virðing að því að safna saman fjárfestahópi sem kaupa muni 60-70% hlut í bankanum. Fjárfestahópurinn að baki kaupunum muni samanstanda af lífeyrissjóðum annars vegar og einkafjárfestum hins vegar. Mun liggja fyrir að síðarnefndi hópurinn verði leiddur af Sigurbirni Þorkelssyni, fyrrverandi yfirmanni hjá Barcleys-bankanum, og Hreggviði Jónssyni, aðaleiganda Veritas og einum eigenda Kaupáss, sem rekur meðal annars Krónu-verslanirnar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á að öðru leyti eftir að mynda hóp einkafjárfestanna en stefnt mun vera að því að sá hópur telji 25-40 aðila með um 250-1.200 milljóna króna hlut hver.

Er stefnt að því að stærstu lífeyrissjóðirnir skrái sig fyrir allt að 10% hlut en ólíklegt er talið að hlutdeild hvers þeirra verði meiri. Ræður þar mestu að hlutur yfir 10% í fjármálafyrirtæki telst virkur í skilningi laga og þá munu sjóðirnir ekki vilja að eign þeirra í einstaka fjármálastofnun nemi meira en tveimur til þremur prósentum af heildareignum þeirra.

Virðing stefnir að því að frá kaupunum verði gengið á fyrri hluta næsta árs en að í kjölfarið muni núverandi meirihlutaeigandi bankans, á grundvelli fyrrnefndrar sölu, bjóða allt að 20% hlut í bankanum í almennu útboði og þar með losa endanlega um eignarhald sitt á honum. Mun í tillögu Virðingar felast að Kaupþing skuldbindi sig til þess að verð hlutafjár í útboðinu verði nákvæmlega hið sama og það sem samningar náist um í tilfelli einkafjárfestanna og lífeyrissjóðanna. Með því muni almenningi gefast kostur á að eignast hlut í bankanum á sama verði og þeir sem fyrstir koma að kaupunum.

Arctica vill skrá hlutinn í vor

Arctica mun hafa unnið að undirbúningi málsins um alllangt skeið. Fyrirtækið stefnir að því að leiða saman hóp fjárfesta sem samanstandi af fyrirtækinu sjálfu, lífeyrissjóðum og öðrum einkafjárfestum. Samkvæmt heimildum mun Arctica ekki hafa hleypt neinum einkafjárfesti að málinu enn sem komið er og hefur öll áhersla verið lögð á að fá lífeyrissjóðina að því, rétt eins og í tilfelli Virðingar. Arctica mun stefna að því að leiða fjárfestahópinn í kaupum á öllum 87% hlut Kaupþings í bankanum. Þá verði bankinn skráður á aðalmarkað Kauphallarinnar á fyrri hluta næsta árs í kjölfar útboðs. Hugmyndir munu vera uppi um að allt að10% hlutur verði boðinn almennum fjárfestum til kaups en endanlegt umfang útboðsins mun þó ekki enn vera ákveðið.

Sjóðirnir sýna ekki á spilin

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum innan úr lífeyrissjóðakerfinu hefur enginn af þremur stærstu sjóðunum skuldbundið sig til þátttöku í tilboðum fyrirtækjanna tveggja. Eignir LSR, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis telja um helming alls lífeyriskerfisins og nema meira en 1.500 milljörðum króna. Þess mun vera beðið að einhver þeirra þriggja ríði á vaðið og velji hvoru fyrirtækinu þeir fylgi að málum, sé það vilji þeirra að leggja fram tilboð í bankann.

Stór biti fyrir markaðinn

Bókfært eigið fé Arion banka nam 168 milljörðum um mitt ár. Hluturinn sem Arctica og Virðing falast eftir er því bókfærður á 146 milljarða. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu áætlanir þó miða að því að eigið fé verði að einhverju marki greitt út með arðgreiðslu sem gæti numið allt að 40 milljörðum króna.

Verðmat liggur ekki fyrir á þessu stigi en áætlanir fyrirtækjanna munu miða að því að bankinn verði metinn á 0,6 til 0,8 sinnum bókfært eigið fé. Sé litið fram hjá mögulegri útgreiðslu eigin fjár í formi arðs gæti kaupverð hlutarins því hlaupið á bilinu 88 til 117 milljarðar króna. Komi þrír stærstu lífeyrissjóðirnir af fullu afli inn í kaupin mun hlutur þeirra því geta numið 27 til 36 milljörðum samtals. Þá munu aðrir fjárfestar og minni lífeyrissjóðir þurfa að skrá sig fyrir allt að 49 til 66 milljörðum króna.

CAD-hlutfall bankans var um mitt þetta ár 23,2% og þar af var kjarnaeiginfé án víkjandi lána 21,8%. Lögbundið lágmark CAD er 8% í tilviki bankastofnana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK