Eigendur Herragarðsins, Boss-búðarinnar, Englabarna og Mathildu ætla að veita fimmtán prósenta afslátt af öllum vörum fram til áramóta og vera þannig fyrri til þess að „afnema tolla“.
Tollar af fötum og skóm verða afnumdir um áramótin en Hákon Hákonarson, eigandi fyrrnefndra verslana, segist hafa viljað flýta ferlinu fyrir viðskiptavini.
Hákon segir verðin eiga að vera sambærileg því sem gerist í Skandinavíu eftir verðlækkunina og bætir við að markmiðið sé að halda versluninni í landinu.
Afslátturinn verður í gildi þar til nýjar pantanir, án vörugjalda, hafa verið gerðar eftir áramót.
Við kynningu á fjárlagafrumvarpinu í haust, þegar breytingarnar voru kynntar, sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að eftir afnám tollanna ætti verslun á Íslandi að standa fyllilega jafnfætis allri sérvöruverslun á Norðurlöndunum.