Norðursigling hlaut silfurverðlaun World Responsible Tourism Awards 2015 á World Travel Market (WTM) í London 4. nóvember sl. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki er heiðrað með þessum hætti á sýningunni.
Verðlaunin fékk Norðursigling fyrir Opal-verkefnið, en Opal er rafknúið hvalaskoðunarskip, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
„Seglskipið Opal er tæknivæddasta skipið sem notað er í hvalaskoðun á Íslandi en skipið er með nýjan og sérhannaðan skrúfubúnað sem hleður rafgeyma skipsins undir seglum. Rafgeymar Opal eru hlaðnir með umhverfisvænni orku í höfn en þegar siglt er undir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og hlaða rafmagni inn á geyma skipsins.
Hvalaskoðunin verður vegna þessa enn hljóðlátari, sem hefur jákvæð áhrif á upplifun gesta og hefur mun minni truflandi áhrif á hvalina sem skoðaðir eru. Búnaðurinn hefur vakið mikla athygli erlendis og hefur Norðursigling nú uppskorið verðlaun fyrir vikið,“ segir í tilkynningu.
Á Ferðamálaþingi sem haldið var á Akureyri í október sl. hlaut Norðursigling Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2015. Dómnefnd horfði sérstaklega til Opal-verkefnisins sem og áherslu Norðursiglingar á verndun og viðhald gamalla eikarbáta. Síðast en ekki síst var Norðursigling valið fyrirtæki ársins af Markaðsstofu Norðurlands. Þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og unnið að stöðugri uppbyggingu og vöruþróun.
Í september sl. bættist nýr hluthafi, Eldey TLH hf., í hóp eigenda Norðursiglingar. Eldey fjárfestir í sterkum afþreyingarfyrirtækjum sem hafa uppbyggingu, vöruþróun og sjálfbærni að leiðarljósi. Aðrir eigendur Norðursiglingar eru stofnendurnir, bræðurnir Hörður og Árni Sigurbjarnarsynir og Heimir Harðarson.