Bílavarahlutafyrirtækið og verkstæðið Poulsen auglýsti nýverið eftir starfsmanni í stjórnunarstöðu. Það sem athygli vekur er að einungis var auglýst eftir konum. „Kvenkyns stjórnandi“ í sölu- og markaðsstörf segir í atvinnuauglýsingunni.
„Ástæðan er mjög einföld,“ segir Björgvin Ragnarsson, sölustjóri hjá Poulsen, í samtali við mbl. „Við erum í mjög karllægu umhverfi. Hjá okkur starfa 34 einstaklingar og þar af eru 30 karlmenn,“ segir hann.
„Okkur fannst bara sjálfsagt að auglýsa eftir konum til þess að reyna rétta hlutföllin aðeins af. Auk þess hafa konur oft aðra sýn á hluta en karlmenn,“ segir Björgvin.
Hann segir viðbrögðin hafa verið mjög góð og sér fram á mikla vinnu við að fara yfir umsóknir. Aðspurður segir hann engan hafa gert athugasemd við auglýsinguna og sóttu engir karlmenn um starfið. „Jafnvel þótt ég hefði alveg búist við því. Að það kæmi einhver og segði: „Heyrðu, ég er bara alveg frábær í þessu og mig langar að sækja um.“ En það gerðist ekki þótt það hefði nú verið allt í lagi,“ segir Björgvin.
Aðspurður hvort hvatning sem þessi sé nauðsynleg til þess að konur sæki um segir hann að fáar konur séu að minnsta kosti í bransanum. Björgin bendir á að samfélagsleg viðmið megi túlka þannig að allt bílatengt tilheyri einhverjum karlaheimi. „Sem er reyndar ekki rétt því hér læðast inn stúlkur að leita eftir bílahlutum,“ segir hann. „Konur eru alltaf velkomnar í þennan bransa.“
„Við finnum að þær konur sem vinna hjá okkur eru oft með aðra sýn en margir karlarnir og vildum styrkja það,“ segir Björgvin að lokum.