Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 16,7 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins, samanborið við 18,2 milljarða króna á sama tímabili 2014 en þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri, segir í tilkynningu frá bankanum.
Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 11,9 milljarðar króna samanborið við 11,4 milljarða króna á sama tíma 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 13,0% samanborið við 13,1% á sama tímabili 2014.
Hreinar vaxtatekjur voru 21 milljarður króna sem er heldur meira en á sama tímabili í fyrra. Útlán til viðskiptavina jukust um 4% frá áramótum í takt við hagvöxt. Heildareignir Íslandsbanka voru 1.004 ma. kr.
Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 5,9 milljörðum króna, samanborið við 3,5 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í fréttatilkynningu: „Afkoma Íslandsbanka fyrstu níu mánuði ársins var mjög góð. Við sjáum áframhaldandi fjölbreytni í tekjustoðum bankans og jukust þóknanatekjur um 17% milli ára. Á sama tíma hefur vöxtur útlána verið hóflegur.
Seðlabanki Íslands hækkaði bindiskylduna í lok september sem dregur úr útlánagetu bankanna, en við vonum að hér sé um tímabundna aðgerð að ræða. Lánshæfismatsfyrirtækið Standard and Poor‘s hækkaði bankann í fjárfestingarflokk BBB-/A-3 í júlí og staðfesti nýlega mat sitt eftir að tilkynnt var um aðgerðir tengdar afléttingu hafta.“