Flutningafyrirtækið DHL hefur afgreitt um sex hundruð áfengispantanir til einstaklinga og fyrirtækja á þessu ári og er þá helst um að ræða gjafir eða pantanir áhugamanna á áfengi sem ekki fæst hér á landi.
Atli Freyr Einarsson, framkvæmdastjóri DHL, segir áfengissendingar hafa verið nokkuð stöðugar milli ára þótt töluvert hafi dregið úr í ár. Líkt og áður segir eru pantanirnar 600 á þessu ári en á sama tíma í fyrra voru þær 1.100 talsins. Atli segist ekki geta útskýrt þennan samdrátt en bætir við að flutningsmagn hjá fyrirtækinu hafi heilt yfir aukist milli ára og þá sérstaklega almennar sendingar til einstaklinga.
Atli segir algengast að vínáhugamenn séu að verða sér úti um ófáanlegt áfengi þar sem stakar flöskur séu oftast ódýrari í Vínbúðinni. „Það felst augljós hagkvæmni í því að flytja mikið magn á stórum brettum með sjófrakt,“ segir hann en bætir við að í langflestum tilvikum sé flutningskostnaðurinn greiddur erlendis, hvort sem það sé erlend vefsíða með samning við DHL, eða erlendur birgir sem sendir viðskiptavini í gegnum sinn reikning hjá DHL ytra.
Spurður um áfengissendingar hjá flutningafyrirtækinu TNT segir Héðinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri, eitthvað vera um þetta en ekki mikið.
„Menn hafa verið að láta senda sér sérvín sem þeir geta ekki nálgast hér en þetta er ekkert teljandi. Það getur svo sem verið að breytast núna,“ segir Héðinn sem telur fólk panta vín með póstsendingu annars vegar vegna verðsins og hins vegar vegna vöruframboðs.
Atli segir einstaklinga ekki finna fyrir miklum mun á almennum póstsendingum og áfengissendingum þar sem einungis þurfi að staðgreiða afgreiðslugjöld. Munur sé hins vegar á þessu hjá heildsölum. Fyrirtæki eru oftast með tollkrít hjá DHL en ekki er hægt að nota hana fyrir áfengið þar sem DHL þarf að leggja út fyrir tollinum áður en varan er afhent. Fyrirtækin þurfa því að vera með svokallaða áfengiskrít hjá tollinum.
Hann segir einungis heildsala vera með slíkan reikning og eru þeir með flestar pantanir. „Það eru einhver veitingahús að þessu en almennt eru þetta heildsalar,“ segir hann. Fyrrnefndar sex hundruð pantanir eru frá einstaklingum og fyrirtækjum sem eru ekki með áfengiskrít og eru því að kaupa inn í minna magni.
Atli og Héðinn segja að einungis þeir sem hafi aldur til geti pantað áfengi með þessum hætti og bætir Atli við að fyrirtækið afgreiði ekki pantanir til annarra. „Verklagsreglan er sú að sendingarnar eru stoppaðar og endursendar, en samkvæmt tolladeild þá erum við ekki með dæmi um að þetta hafi gerst,“ segir Atli