Í jólamánuðinum munu matvara og flug líklega hækka mest í verði þar sem báðir liðirnir hafa haft árstíðabundna tilhneigingu til hækkunar í þessum mánuði.
Þetta kemur fram hjá greiningu Íslandsbanka. Janúarmæling vísitölu neysluverðs litast síðan jafnan af reiptogi milli gjaldskrárhækkana annars vegar, og útsöluáhrifa hins vegar, og þar gerir greining Íslandsbanka ráð fyrir að síðarnefndi þátturinn hafi vinninginn með stuðningi af lækkun flugfargjalda og lokaáhrifum af afnámi vörugjalda á fatnað og skó.
Febrúarmánuður ber svo ávallt með sér talsverðan hækkunarþrýsting á verðlag vegna útsöluloka, og er gert ráð fyrir því nú sem endranær. Auk þess er talið að hækkandi íbúða- og leiguverð muni vega til ríflega 0,1 prósent hækkunar á vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði á þessu tímabili.
Talið er að bæta muni í verðbólgutaktinn eftir því sem líður á árið 2016. Talið er að verðbólgan fari yfir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðið á þriðja fjórðungi næsta árs, og verði komin í 3,6 prósent í árslok 2016. Ári síðar er gert ráð fyrir að verðbólgan mælist 3,5 prósent.
Ástæður fyrir vaxandi verðbólgu eru fyrst og fremst mikill innlendur kostnaðarþrýstingur vegna rausnarlegra kjarasamninga og hitnunar hagkerfisins. Áhrif verðhjöðnunar á innfluttum vörum munu einnig fjara út samkvæmt spá Íslandsbanka, enda er gert ráð fyrir stöðugu gengi út spátímann og lítilsháttar hækkun á alþjóðlegu vöruverði.