Viðskiptaráð Íslands segir æskilegt að sem stystur tími líði á milli tilkynningar um lækkun neysluskatta og gildistöku slíkrar lækkunar. Að öðrum kosti geti skapast staða þar sem neytendur bíða með kaup á viðkomandi vörum þar til lækkunin kemur til framkvæmda.
Viðskiptaráð vísar til fregna um að kaupmenn séu þegar farnir að veita afslætti í samræmi við fyrirhugað afnám fatatolla og segja að þetta sé líklega gert með það að markmiði að vinna gegn slíkum áhrifum.
Stjórnvöld hafa boðað að tollar verði afnumdir af fleiri vörutegundum um áramótin 2016/2017. Þar má til dæmis nefna barna-, bygginga-, heimilis-, íþrótta- og snyrtivörur ásamt heimilistækjum og myndavélum.
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að flýta gildistöku þess afnáms þannig það komi til framkvæmda á sama tíma og afnám tolla á fatnað og skó. Þannig megi koma í veg fyrir að sambærilegt millibilsástand skapist fyrir aðrar vörutegundir á næsta ári.
Frétt mbl.is: Fataverð strax að lækka
Frétt mbl.is: Afnema fatatolla strax