Kalt kranavatn ekki í boði

Enginn vatnshani er í flugstöðinni.
Enginn vatnshani er í flugstöðinni. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Hvorki eru vatnskranar með köldu vatni né drykkjarbrunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hvergi er því hægt að fá sér kalt vatn af krana og verða farþegar annað hvort að leita á veitingastaði eða kaupa vatnsflöskur.

Þetta hefur verið staðan í nokkur ár, eða allt frá því að snertilausum blöndunartækjum var komið fyrir á salernum. „Farþegum á flugvöllum líður betur með að þurfa ekki að snerta blöndunartækin og það er ástæðan fyrir því að vatnið er volgt,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. „En svo eru verslanir í flugstöðinni með hálfan lítra af vatni til sölu og veitingastaðir bjóða flestir upp á vatn í könnum fyrir viðskiptavini,“ segir hann.

Hann segir þetta ekki vera tilraun til þess að auka vatnssölu á flugvellinum.

Málið rætt en engin ákvörðun

Guðni segir að ekki hafi ennþá verið lagt í að setja upp vatnshana. „Það hefur verið rætt en engin ákvörðun tekin,“ segir hann og bætir við að leggja þurfi sérstakar lagnir ef það yrði gert. „Þetta er þó alveg hægt ef sú ákvörðunin yrði tekin,“ segir hann.

Aðspurður segir Guðni farþega stundum láta í sér heyra á Facebook vegna þessa. „Fólk bendir okkur á þetta og spyr hvort hægt sé að bjóða upp á kalt vatn,“ segir hann. „En flestir farþegar setjast niður á veitingastað og geta þá fengið sér vatnssopa þar.“

Guðni segir flæðið í gegnum flugstöðina vera viðkvæmt fyrir öllum breytingum. „Við þurfum að hugsa vel um hvern einasta hlut sem við setjum inn. Ef vatnshana verður komið fyrir stoppa kannski 10 af hverjum 100 farþegum á staðnum og þar myndast tappi,“ segir hann. „Hvert svona atriði þarf að hugsa mjög vel.“

Hvergi er hægt að nálgast kalt kranavatn á flugstöðinni.
Hvergi er hægt að nálgast kalt kranavatn á flugstöðinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK