Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist á tækni- og hugverkaþingi í gær ætla að efla viðskiptaumhverfi hátækni- og sprotageirans í landinu með því að auðvelda aðgengi að erlendri sérfræðiþekkingu og fjármagni.
Til stendur að gera kauprétti og umbreytanleg skuldabréf að skilvirkum fjármögnunartólum fyrir sprotafyrirtæki með því að breyta skattlagningu á þessi verkfæri. Breytingin felst í því að skattlagning mun ekki koma til við umbreytingu eða nýtingu á kaupréttum. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir lántökur til þess að standa við skattskyldu á bréfum sem ekki hafa verið seld og gætu jafnvel endað sem tap.
Bjarni sagðist einnig vilja efla umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á Íslandi og beita sér fyrir skattalegum hvötum fyrir fjárfestingar í nýsköpun. Pólitísk samstaða væri um málið og stuðningur þvert á flokka.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, tilkynnti drög að aðgerðaráætlun sem hún hefur nú þegar birt á vef ráðuneytisins.
Þar má finna umbætur sem hún hyggst koma í framkvæmd og leggja fyrir þingið á næstu vikum. Helstu tillögur snúa m.a. að fjármögnunar- og starfsumhverfi sprotafyrirtækja og regluverkinu þar í kring. Opið verður fyrir umsagnir til 11. desember nk.
Brynhildur S. Björnsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hrósaði tillögunum en sagði bleika fílinn í salnum vera ónýtan gjaldmiðill, höftin og óstöðugleika sem koma í veg fyrir frekari vöxt.
Hún talaði einnig um að fyrirtæki á borð við CCP, Össur og Marel myndu aldrei þrífast hér á landi án undanþága. Það væri miður hversu erfitt er fyrir minni sprota að fá slíkar undanþágur og hún nefndi sem dæmi að það hefði kostað Skema 750 þúsund krónur í lögfræðikostnað og átta mánaða biðtíma að fá að millifæra 76 Bandaríkjadali til þess að stofna móðurfélag í USA.
Þetta var sjötta tækni- og hugverkaþingið sem haldið er á vegum Samtaka Iðnaðarins.