Opnun veitingastaðar Pizza 67 á Grensásvegi var mun dýrari aðgerð en gert var ráð fyrir og hefur félagið P67 ehf., sem rekur staðina á Grensásvegi og í Langarima, því ekki getað gert upp laun við alla starfsmenn.
Einar Hrafn Björnsson, fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins, setti inn færslu á Facebook þar sem hann hvatti fólk til þess að sniðganga pítsustaðina. Hann aðstoðaði eigendur við opnun staðarins á Grensásvegi í júní og segist hafa sett upp tölvukerfi, gegnt vaktstjórn og séð um flest skrifstofustörf á þeim tíma.
Hinn 1. júlí sl. fékk hann hins vegar ekkert útborgað og segist hafa skilið það ágætlega þar sem erfitt geti verið fyrir fyrirtæki að stækka svo mikið á stuttum tíma. „Ég hélt áfram að vinna hjá P67 ehf. í þeirri góðu trú að þessi vandamál myndu leysast þegar liði á sumarið en svo var ekki,“ segir Einar.
Hann hætti störfum í byrjun október og átti þá inni eins og hálfs mánaðar laun ásamt hluta launa síðan í byrjun sumars. Þegar hann fór með launakröfuna til VR kom í ljós að P67 hafði ekki greitt neitt í lífeyrissjóði eða verkalýðsfélög frá stofnun fyrirtækisins í desember 2014. Krafa Einars hljóðar upp á 950 þúsund og hefur innheimtubréfum ekki verið svarað.
„Ég veit fyrir víst að það eru hátt í 10 aðrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn sem eiga laun inni hjá P67 ehf. sem þeir hunsa bara,“ segir Einar.
Anton Traustason, einn eigenda staðarins, segir það hafa verið dýrt að koma veitingastaðnum á Grensásvegi á koppinn og því orðið tafir á skuldauppgjöri. Hann segir Einar hafa verið dýran starfsmann en hins vegar sé stefnt að því að allir fái allt greitt að fullu.
„Það er verið að vinna í þessu og rétta hlutina af og enginn er að fara að tapa neinu,“ segir Anton. „Það sem ég skil ekki í þessu er að fólk skuli halda að það hjálpi fyrirtækinu að rakka það niður. Að það hjálpi þeim að fá launin greidd.
Ef þú ætlar að reyna að rýra möguleika fyrirtækisins á að styrkja ertu að skjóta þig í fótinn,“ segir Anton.