„Stjórn Félags atvinnurekenda lýsir miklum vonbrigðum með þá afstöðu ríkisstjórnarinnar að lækka ekki tryggingagjald til að skapa forsendur fyrir áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. FA hvetur stjórnvöld til að endurskoða þessa afstöðu.“
Þetta segir í ályktun stjórnar FA sem var samþykkt í dag.
Þar er bent á að tryggingagjaldið hafi verið hækkað mikið til að standa undir bótagreiðslum vegna stóraukins atvinnuleysis eftir bankahrunið. „Nú hefur atvinnuleysið snarminnkað og þá á að sjálfsögðu að lækka skattinn til samræmis í stað þess að taka tekjurnar af honum til annarra verkefna ríkisins,“ segir í ályktuninni.
„Þegar horft er til sanngjarns skattaumhverfis fyrirtækja nægir ekki að horfa til dæmis á tekjuskatta.“
„Tryggingagjaldið er ósanngjarn skattur sem hækkar eftir því sem starfsmenn eru fleiri og launakostnaður hækkar. Það vinnur þannig gegn því að fyrirtæki bæti við sig fólki og dregur úr getu þeirra til að standa undir launahækkunum. Lækkun tryggingagjaldsins er ein forsenda þess að varðveita megi þann frið og stöðugleika á vinnumarkaðnum sem um samdist fyrr á þessu ári.“
Auka frekar útgjöld
Samtök atvinnulífsins sendu einnig frá sér yfirlýsingu varðandi tryggingagjaldið í dag þar sem segir að hægt sé að lækka gjaldið ef vilji er til þess á Alþingi.
„Raunverulegt svigrúm hefur myndast til þess að lækka gjaldið en þess í stað er ákveðið að auka útgjöld ríkisins. Rekstur ríkissjóðs mun kosta skattgreiðendur 120 milljörðum króna meira á næsta ári en árið 2013. Útgjöld ríkisins verða meira en einum milljarði hærri í hverri einustu viku árið 2016 en á þessu ári,“ segir SA.
Bent er á að fjárlaganefnd hafi kynnt tillögur um 300 breytingar á fjárlagafrumvarpinu 2016 fyrir aðra umræðu. Með þeim munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 11 milljarða króna frá því sem áður var gert ráð fyrir.
Rekstrargjöld ríkissjóðs að frátöldum vöxtum á árinu 2016 munu þá nema 617 milljörðum króna.
Útgjöldin munu vaxa um 60 milljarða króna frá fjárlögum 2015. Minnihluti fjárlaganefndar hefur enn aðrar hugmyndir og leggur til 17 milljarða útgjaldaaukningu til viðbótar og að skattar verði hækkaðir enn frekar til að fjármagna þá aukningu.
„Við endurskoðun kjarasamninga í febrúar leggja Samtök atvinnulífsins megináherslu á að stjórnvöld virði þær forsendur sem gengið var út frá þegar tryggingagjaldið var hækkað mikið árin 2009 og 2010 vegna kreppunnar, sem voru að yrði lækkað á ný þegar efnahagslífið næði sér á strik. Sá tími er nú runninn upp,“ segja Samtök atvinnulífsins.