Stefnt að 360 milljóna afgangi 2016

Hafnarfjörður
Hafnarfjörður

Fjár­hags­áætl­un Hafn­ar­fjarðarbæj­ar fyr­ir árin 2016 - 2019 var samþykkt í nótt en hún ger­ir ráð fyr­ir rúm­lega 360 millj­óna króna rekstr­araf­gangi á A og B hluta. Áætlað veltu­fé frá rekstri sam­an­tekið fyr­ir A og B hluta er 3,3 millj­arðar króna sem er um 15% af heild­ar­tekj­um sveit­ar­fé­lags­ins. Aukið veltu­fé er grunn­for­senda þess að ár­ang­ur ná­ist í að lækka skuld­ir bæj­ar­fé­lags­ins, seg­ir í til­kynn­ingu frá Hafn­ar­fjarðarbæ.

Í ný­samþykktri áætl­un er áhersla lögð á óbreytt þjón­ustu­stig í bæj­ar­fé­lag­inu. Leik­skóla­gjöld breyt­ast ekki annað árið í röð. Fast­eigna­skatt­ur mun hækka á móti lækk­un vatns- og frá­veitu­gjalda þannig að álög­ur á íbúa aukast ekki. Þetta eyk­ur jafn­framt af­slátt til aldraðra og ör­yrkja af fast­eigna­skatti. Fyr­ir árs­lok 2015 verða er­lend­ar skuld­ir bæj­ar­fé­lags­ins greidd­ar upp að stærst­um hluta þannig að á nýju ári verða nær all­ar skuld­ir bæj­ar­fé­lags­ins í ís­lensk­um krón­um.

7% meira í fræðslu- upp­eld­is­mál

Fjár­heim­ild vegna fræðslu- og upp­eld­is­mála hækk­ar um 644 millj­ón­ir króna á milli ára eða um 7%. Áfram verður lögð áhersla á bætt­an náms­ár­ang­ur í læsi og stærðfræði auk þess sem áfram­hald­andi tækni­væðing mun eiga sér stað í leik- og grunn­skól­um.

Grunn­skóla­nem­um fjölg­ar um 103 milli ára á meðan leik­skóla­börn­um fækk­ar um 83 miðað við óbreytt­an inn­tökuald­ur og verður brugðist við því. Gert er ráð fyr­ir að öll börn sem fædd eru í mars 2015 og fyrr kom­ist inn á leik­skóla haustið 2016.

Stór­ir ár­gang­ar eru í yngstu bekkj­um grunn­skóla og hef­ur aðsókn í frí­stunda­dvöl auk­ist í sam­ræmi við það. Á næsta ári má bú­ast við að allt að 80 fleiri börn nýti þjón­ust­una sem kall­ar á fjölg­un starfs­manna.

Fjár­veit­ing vegna niður­greiðslu þátt­töku­gjalda hækk­ar. Nú geta for­eldr­ar/​for­ráðamenn fengið niður­greiðslu vegna íþrótta- og tóm­stundaiðkun­ar barna sinna í öðrum sveita­fé­lög­um, sem er nýj­ung. Nem­end­ur í 8. – 10. bekk munu fá í kring­um 13% launa­hækk­un fyr­ir vinnu sína í Vinnu­skól­an­um. Auk­in áhersla verður jafn­framt lögð á for­varn­ir m.a. með sam­starfi við Sam­tök­in 78 og Rauða kross­inn, seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK