Franskt fyrirtæki sótti nýverið um einkaleyfi á nýrri tveggja hæða flugvél. Í stað farangursgeymslu í botni flugvélarinnar er þar gluggalaust farþegarými.
Það er fyrirtækið Zodiac Aerospace sem á hugmyndina. Hugsunin er að nýta hönnunina fyrir lággjaldaflugfélög þar sem farþegar eru ekki með mikinn farangur. Í stað farangurrýmis verða farangurhólf meðfram hliðum vélarinnar.
Þá er einnig gert ráð fyrir innbyggðum sjálfsölum þar sem farþegar geta sjálfir sótt sér mat og drykk. Engir gluggar eru í neðra farrýminu en þar verður stór skjár sem sýnir umhverfið að utan í gegnum myndavélar á skrokki vélarinnar.
Um 110 farþegar eiga að komast fyri í þessu nýja rými og á hvorum enda þess verða stigar á efri hæð.
Í umsókn Zodiac segir að rannsóknir sýni að einungis 37 prósent nýting sé á farangursrýmum að meðaltali.