IKEA-apinn sem skaust upp á stjörnuhimininn fyrir tveimur árum lifir nú góðu lífi í Story Book Sanctuary apagarðinum í Ontario í Kanada. Apagarðurinn lenti í fjárhagsvandræðum fyrr á árinu en eftir árangursríka hópfjármögnun á Kickstarter tókst að bjarga rekstrinum. Í dag treystir starfsemin á frjáls framlög og sjálfboðaliða.
Apinn, sem nefnist Darwin, öðlaðist frægð þegar hann ráfaði inn í IKEA verslun í Toronto í Kanada íklæddur lítilli loðkápu. Eigandi hans hafði stokkið inn í verslunina og gleymt að læsa búrinu á meðan. Ekki er heimilt að eiga eins framandi dýr og apa í Toronto og var hann tekinn af eigandanum sem þó barðist fyrir honum fyrir dómstólum.
The Weather Channel ræddi við stjórnarmeðlim félagsins sem heldur utan um rekstur apagarðsins sem sagði Darwin njóta nýja lífsins. Hann var einungis nokkurra mánaða gamall þegar hann vakti athygli og er þriggja ára í dag.
Í samtali við Wheather Channel segir Daina Liepa að í garðinum séu apar sem hafa ekki lifað „eðlilegu apalífi“ og á þá við apa sem hafa ýmist verið gæludýr eða lifað við slæmar aðstæður.
Í garðinum fá þeir að hlaupa um frjálsir á stóru svæði og eru þar um tuttugu apategundir.
Facebook síða Story Book Farm Primate Sanctuary.
IKEA hefur reynt að notfæra sér vinsældir apans að einhverju leyti en í sumar gaf fyrirtækið m.a. út auglýsingu þar sem apar voru í aðalhlutverki.