Það virðist nokkuð ljóst að staða ríkissjóðs er að ýmsu leyti ekki eins góð og virðist á yfirborðinu og augljóst er að stórar gjaldfærslur eiga eftir að falla á hann á næstu árum.
Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans sem nefnir t.d. útgjaldaaukningu vegna launahækkana.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að uppsöfnuð launahækkun nemi 16,3% árið 2016 og 19% þegar hækkanirnar verða að fullu komnar til framkvæmda.
Að meðtöldum launahækkunum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu og endurmetnum áhrifum launahækkana á árinu 2015 er áætlað að samanlögð útgjaldaaukning vegna launahækkana ríkisstarfsmanna nemi um 22 milljörðum króna á árinu 2016.
Ekki hefur enn verið lagt mat á áhrif þessa á hækkun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Meirihluti fjárlaganefndar hefur framreiknað skuldbindingar eins og þær standa í árslok 2014 og fær út að í árslok verði brúttóskuldbindingin komin upp í 794 milljarða króna og hafi þannig hækkað um 126,5 milljarða á árinu.
Út frá þessu má ætla að ófjármögnuð lífeyrisskuldbinding Ríkissjóðs nálgist að verða um 600 milljarðar króna nú í árslok. Þessa upphæð á eftir að gjaldfæra í ríkisreikningi með einum eða öðrum hætti.
Í nefndaráliti meirihlutans nú er einnig sérstaklega bent á að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda sem voru settar fram með frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 þar sem varað var við því að verði ekkert að gert varðandi Íbúðalánasjóð muni framlög til hans halda áfram að aukast um árabil.
Þannig er nú gert ráð fyrir að nú komi til 1,3 milljarða króna framlag til sjóðsins á næsta ári . Meirihluti fjárlaganefndar bendir þarna á vandamál sem ítrekað hefur verið fjallað um, tillögur hafa komið fram um að leysa, en engu að síður hefur ekkert verið gert.
Hér má lesa Hagsjána í heild.