Farþegafjöldi Icelandair á þessu ári fór í dag yfir þrjár milljónir. Þrímilljónasti farþeginn reyndist vera Embla Waage, 12 ára, sem fór með foreldrum sínum og tvíburasystrum til Kaupmannahafnar á flugi FI212 síðdegis í dag.
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, afhenti henni glaðning við brottfararhliðið; blómvönd og gjafabréf, og öllum farþegum í fluginu var boðið upp léttar veitingar.
Fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu, að þetta sé Þetta er í fyrsta sinn í langri sögu Icelandair sem farþegafjöldinn í áætlunarflugi fari yfir þrjár milljónir á einu ári. Farþegafjöldinn fór í fyrsta sinn yfir tvær milljónir árið 2012, en þeir voru um 2,6 milljónir á síðasta ári. Farþegafjöldinn í ár er í samræmi við áætlanir en gert er ráð fyrir að farþegum fjölgi um 450 þúsund á næsta ári og verði í heild um 3,5 milljónir á árinu 2016, að því er segir í tilkynningu.