Bannar Sviss bönkum að búa til peninga?

Frá Bern, höfuðborg Sviss.
Frá Bern, höfuðborg Sviss. Wikipedia

Framund­an er þjóðar­at­kvæðagreiðsla í Sviss um það hvort viðskipta­bönk­um verður bannað að búa til ra­f­ræna pen­inga. Sviss­nesk stjórn­völd staðfestu í gær að þjóðar­at­kvæðið verði haldið í kjöl­far þess að rúm­lega 110 þúsund und­ir­skrift­um var safnað því til stuðnings. Fjallað var um málið á frétta­vef breska dag­blaðsins Daily Tel­egraph í gær. Dag­setn­ing at­kvæðagreiðslunn­ar hef­ur ekki verið ákveðin.

Sam­kvæmt þarlend­um lög­um ber að halda þjóðar­at­kvæði um mál ef safnað er 100 þúsund und­ir­skrift­um á inn­an við 18 mánuðum. Aðstand­end­ur und­ir­skrifta­söfn­un­ar­inn­ar, sam­tök­in Vollgeld, vilja að sviss­neski seðlabank­inn hafi einn vald til þess að búa til pen­inga og bank­ar geti aðeins lánað út það fjár­magn sem lagt hafi verið inn í þá eða þeir fengið frá öðrum bönk­um. Ákvörðun um það með hvaða hætti nýir pen­ing­ar séu bún­ir til lægi hjá stjórn­völd­um.

Eins og staðan er í dag hef­ur seðlabanki Sviss aðeins einka­rétt á að gefa út sviss­neska seðla og mynt. Bank­ar búa hins veg­ar til um 90% pen­inga í um­ferð með ra­f­ræn­um hætti í formi út­lána. Sama fyr­ir­komu­lag er við líði víðast hvar ann­ars staðar í heim­in­um. Hug­mynd­in um að seðlabank­ar hefðu einka­rétt á út­gáfu allra pen­inga var fyrst kynnt til sög­unn­ar á fjórða ára­tug síðustu ald­ar sem leið til þess að koma i veg fyr­ir eigna­ból­ur og óá­byrga út­lána­starf­semi. Hún hafi meðal ann­ars notið stuðnings hins þekkta banda­ríska hag­fræðings Irv­ings Fischer.

Haft er eft­ir Vollgeld að seðlabanki Sviss hafi verið stofnaður árið 1891 með einka­rétt á að gefa út sviss­neska pen­inga­seðla og mynt. Með til­komu ra­f­rænna pen­inga hafi bank­ar á nýj­an leik öðlast þann mögu­leika að búa til sína eig­in pen­inga. Ákvörðunin frá 1891, sem tek­in hafi verið af al­menn­um kjós­end­um, hafi þannig verið tek­in úr sam­bandi.

Fram kem­ur í frétt­inni að þetta verði ekki í fyrsta sinn sem sviss­nesk­ir kjós­end­ur greiði at­kvæði um mál sem snúa að pen­inga­stefnu Sviss. Þannig hafi 78% kjós­enda hafnað því í þjóðar­at­kvæði síðasta ári að gull­forði sviss­neska seðlabank­ans yrði auk­inn úr 7% í 20%.

Daily Tel­egraph seg­ir að hag­fræðing­ar séu mun já­kvæðari fyr­ir hug­mynd Vollgeld, sem leiðar til þess að stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika og koma í veg fyr­ir of mikla skulda­söfn­un, en stækk­un gull­forðans sem marg­ir hafi álitið fyrsta skrefið að því að koma á gull­fæti á nýj­an leik.

Frétt­inni lýk­ur á því að rifjað er upp að hliðstæðar hug­mynd­ir hafi verið kynnt­ar hér á landi og er þar vísað til hug­mynd­ar Frosta Sig­ur­jóns­son­ar, þing­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem hann hef­ur kallað Betra pen­inga­kerfi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK