Hækkanir, háar arðgreiðslur og nýskráningar hafa einkennt hlutabréfamarkaðinn á þessu ári. Forstjóri Kauphallar Íslands segir horfurnar góðar á næsta ári og bendir á að sjö til átta félög séu að huga að skráningu auk þess sem mikill fengur væri í því að fá bankana í Kauphöllina.
„Þetta hefur verið gefandi ár fyrir fjárfesta,“ segir Páll Harðarson og bendir á að úrvalsvísitalan hafi hækkað um 43 prósent á árinu. Ef arðgreiðslur eru teknar með nemur ávöxtunin um eða yfir 48 prósentum. „Þetta er óvenju gott,“ segir hann.
Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna viðlíka hækkun en þá hækkaði úrvalsvísitalan um 64,7 prósent.
Samtals námu arðgreiðslur og endurkaup hjá félögum á aðallista Kauphallarinnar 28,4 milljörðum króna. Það er 64 prósent aukning milli ára en arðgreiðslurnar árið 2014 námu 17,3 milljörðum króna.
Páll segir kaflaskil hafa orðið á miðju ári eftir að tilkynnt var um haftalosun og árangur náðist í kjaraviðræðum. „Við urðum varir við aukinn kraftur færðist í ýmis verkefni. Það voru margir svartsýnni fram etir ári og urðu bjartsýnni á nýjan leik um mitt ár,“ segir hann.
Hann bendir þó á að hækkunin í ár fylgi á eftir nokkrum erfiðari árum. „Markaðurinn hefur verið brokkgengur og ef maður tekur meðaltals hækkun á síðustu sex eða sjö árum hefur hún ekki verið mikil, eða um 10 til 11 prósent á ársgrunni,“ segir Páll og bendir á að árin hafi verið mjög misjöfn.
„Þetta endurspeglar að nokkru leyti aðstæður í íslensku efnahagslífi þar sem bæði aukinn kraftur og bjartsýni er að færast yfir.“
Þrjú félög voru skráð á markað á árinu; Fasteignafélögin Eik og Reitir auk Símans. Umframeftirspurn var í öllum útboðum og hafa hlutabréf allra félaganna hækkað síðan.
Páll bendir á að markaðurinn hafi vaxið mikið á árinu, bæði vegna hækkana og fyrrgreindra nýskráninga. Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni fór í fyrsta sinn yfir eitt þúsund milljarða á árinu.
Aðspurðu um horfur næsta árs segir Páll þær vera ágætar. „Það er ekkert alveg fast í hendi en það er verið að vinna að nokkrum verkefnum sem mér finnst líklegt að skili sér að einhverju marki í Kauphöllina á næsta ári,“ segir hann.
Páll bendir á að einhver félög séu að skoða skráningu á First North markaðinn eftir að lífeyrissjóðunum var veitt aukin heimild til fjárfestinga á markaðstorgum. „Ég á fastlega von á því að það skili einhverjum skráningum á þann markað á næsta ári en síðan er einnig verið að vinna í öðrum verkefnum sem fæst eru orðin opinber.“
Ölgerðin, Skeljungur og Advania hafa sagst vera að skoða skráningu á markað og Páll segir þau eiga fullt erindi í Kauphöllina. „Ég vonast til þess að sjá þau á markaðnum á næsta ári,“ segir hann.
Auk þeirra segir hann fjögur til önnur félög vera að skoða skráningu. „En eins og með hin félögin liggja ekki alveg fyrir tímasetningar eða endanlegar opinberar ákvarðanir,“ segir hann.
„Síðan eru það auðvitað bankarnir. Það yrði mikill fengur í að fá þá inn á markað,“ segir Páll. „Það yrði vissulega stór biti en ég held að hann yrði alveg viðráðanlegur ef þetta verður tekið í einhverjum skrefum,“ segir hann.
Páll telur að bankarnir myndu hafa góð áhrif á markaðinn og mögulega laða að erlenda fjárfestingu. „Vonandi fara erlendir fjárfestar að gefa hlutabréfamarkaðnum gaum á næsta ári og það veltur að einhverju leyti á þessari framvindu varðandi nýskráningar.“
Hann bendir á að mikið innflæði hafi verið inn á skuldabréfamarkaðinn erlendis frá og nemur fjárfestingin um fimmtíu milljörðum króna. Erlendir fjárfestar hafa þó lítið leitað inn á hlutabréfamarkaðinn ennþá. „Þessi höft hafa haft áhrif á alla fjárfestingu og það hefur verið nærtækast fyrir erlenda fjárfesta að leita fyrst inn á skuldabréfamarkaðinn,“ segir Páll.
„Skuldabréfin eru þekktur fjárfestingakostur og auðvelt er að meta ávöxtunina. Hlutabréfin eru annars eðlis og krefjast annars konar undirbúnings.“
Að lokum segir Páll að næsta ár verði líklega að mörgu leyti kjörið til skráningar. „Ef allt gengur eftir og miðað við bættar efnahagshorfur, aukinn kaupmátt heimilanna til ég að næsta ár sé að mörgu leyti kjörið til skráningar.“
„Þetta er betri staða en verið hefur um langt skeið og því tel ég vera ástæðu fyrir félög að skoða þennan kost gaumgæfilega,“ segir Páll.