Svíþjóð stefnir hratt í reiðufjárlausa framtíð. Peningamagn í umferð hefur dregist hratt saman og margir sölustaðir og bankar taka einfaldlega ekki við reiðufé. Jafnvel Abba-safnið, sem heiðrar hljómsveitina sem samdi lagið Money, Money, Money, tekur hvorki við seðlum né klinki.
Í frétt Sidney Morning Herald er farið yfir þróunina í Svíþjóð og bent er á að sumir hafi áhyggjur af þessu þar tölvuglæpum fjölgar og persónunjósnir verða auðveldari.
Samkvæmt sænska dómsmálaráðuneytinu hefur fjöldi fjársvikamála á Internetinu tvöfaldast á síðasta áratug og voru málin 140 þúsund talsins á síðasta ári.
Þá hefur einnig verið bent á að auðveldara sé að fylgjast með hegðun fólks þegar allar greiðslur fara fram rafrænt.
Reiðufé í umferð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í Svíþjóð er einungis tvö prósent. Hlutfallið er 7,7 prósent í Bandaríkjunum og tíu prósent á evrusvæðinu. Á árinu hefur einungis fimmtungur neytenda greitt með reiðufé en hlutfallið er 75 prósent þegar litið er til allrar heimsbyggðarinnar.
Um helmingur sænskra banka, og þar á meðal þeir stærstu á borð við SEB, Swedbank og Nordea Bank, afgreiða hvorki né taka við reiðufé. Með þessu spara bankarnir sér mikla fjármuni sem annars hefðu farið í öryggisgæslu.
Á síðasta ári mátti finna 3,6 milljarða sænskra króna í bönkum en upphæðin var 8,7 milljarðar árið 2010.
Þrátt fyrir að endalok beinharðra peninga virðast nálgast hratt í Svíþjóð telur sænski seðlabankinn að þeir verði ennþá að einhverju leyti í umferð næstu tuttugu árin hið minnsta.