Í tilefni þess að Flugfélag Íslands mun endurnýja flugflota sinn í byrjun næsta árs fá vélar félagsins nýtt útlit.
Líkt og fram hefur komir fær Flugfélag Íslands þrjár nýjar Bombardier Q400 flugvélar til þess að leysa af hólmi síðustu Fokker 50 flugvélar félagsins en framleiðslu á þeim lauk fyrir 20 árum síðan.
Frétt mbl.is: Fimmtíu ára sögu Fokker lýkur
Í tilkynningu segir að valið hafi verið úr fjölmörgum tillögum að nýju útliti með viðamikilli atkvæðagreiðslu og var niðurstaðan afgerandi.
Um miðjan janúar nk. fer fyrsta Bombardier Q400 flugvélin í málningu í Bretlandi en vélin er svo væntanleg til Íslands í febrúar 2016.
Bombardier Q400 flugvélar Flugfélags Íslands eru hljóðlátari, sparneytnari og taka fleiri farþega en Fokker vélarnar.
Alltaf er gert ráð fyrir að lágmarki 4 ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar, en suma daga vikunnar og á ákveðnum tímabilum ársins verður sætaframboð enn meira en nú er á flestum áfangastöðum.
Þá verða að lágmarki 3 ferðir daglega milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Á álagstímum verður þess jafnframt gætt að auka sætaframboð.