Uppbygging og aukin samkeppni á fjarskiptamarkaði er forstjórum Símans og Vodafone efst í huga í lok ársins. Viðskiptavinir hafa í kjölfarið uppskorið meira virði og val.
„Þegar við hjá Símanum lítum yfir árið 2015 er okkur ofarlega í huga endurskipulagning Símasamstæðunnar,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.
„Síminn, Skipti og Skjárinn sameinuðust í eitt félag, sem var ein forsenda þess að Síminn gæti keppt við erlendar efnisveitur á borð við Netflix, sem veita gagnvirka þjónustu yfir netið,“ segir hann.
Orri segir það einnig hafa verið stóra stund þegar SkjáEinn var opnaður á nýjan leik fyrir öllum landsmönnum auk þess sem ánægjulegt hafi verið að fjárfesta ríkulega í að efla nethraða, bæði með uppbyggingu 4G farsímakerfisins um landið og miðin, auk þess sem nethraðinn á Ljósnetinu hafi verið tvöfaldaður.
Hann segir árið hafa staðið undir helstu væntingum. „Markmiðið um að skrá Símann á markað náðist og eftirspurnin eftir bréfum í fyrirtækinu fór fram úr vonum,“ segir hann. „Það var ánægjulegt að sjá hve margir sýndu traust sitt á fyrirtækinu með því að eignast bréf í því.“
„Í tilfelli Símans er klárt hve samkeppnin var geysihörð á þessu ári, sem hefur gefið viðskiptavinum meira virði og val,“ segir Orri aðspurður um hvað hafi einkennt árið að hans mati.
Utan Símans bendir hann á kjaramál og bú föllnu bankanna innanlands og flóttamannastraum og hryðjuverk ytra. „Horft yfir samfélagið virðist mér sem borið hafi á aukinni samstöðu fólks á Íslandi, eftir nokkuð langt skeið sundurlyndis, þótt enn sé nokkuð í land þar. Væntingar eru um bættan hag og efnahagslegt sjálfstraust hefur aukist,“ segir Orri.
Hann segir horfur næsta árs vera góðar. Bæði fyrir landsmenn og Símann. „Öll þjóðin mun fylgjast spennt með íslenska karlalandsliðinu á EM í Frakkland,“ segir hann og segist stoltur af því að geta boðið landsmönnum á sjónvarpsveislu frá viðburðinum.
Orri segir fleiri drauma Símasamstæðunnar rætast á nýju ári. Hann nefnir að Míla, dótturfélag Símans, hafi kynnt áform sín um að halda áfram þróun fastanetsins og tengja ljósleiðara á fleiri heimili. Þá bentir hann á að Síminn hafi hafið prófanir á svokallaðri ultra háskerpu 4K fyrir SjónvarpSímans.
„Ýmis endurskipulagningarstarf undanfarinna ára hjá Símasamstæðunni mun verða komið í fulla virkni á árinu. En ekkert er algerlega endanlegt, eini fastinn er að það verða alltaf breytingar,“ segir Orri.
„Litið til landsmálanna verður árið 2016 væntanlega það ár sem við sjáum leyst úr gömlum bankamálum og fjármagnshöftum að stórum hluta, sem verður þá mikið framfaraskref,“ segir hann og bætir við að full ástæða sé til bjartsýni. „Ferðaþjónusta blómstrar á Íslandi, búast má við að höftin verði tempruð og Ísland fer á EM. Það er ekki annað hægt en að hlakka til verkefnanna framundan, vera bjartsýnn og leggja sig fram um að skapa tækifæri,“ segir Orri Hauksson.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir árið hafa staðið undir væntingum. Bæði í íslensku efnahagslífi og hjá eigin fyrirtæki.
Hann bendir á mikla uppbyggingu sem hafi átt sér stað hjá Vodafone, Nýjungar á sviði sjónvarpsþjónustu og uppbyggingu 4G háhraðanets um allt land og á haf út víða um landið.
Þá segir hann félagið hafa unnið ötullega áfram að gæðamálum sem hafi meðal annars skilað sér í mun styttri biðtíma í þjónustuveri og eftir aðstoð við heimatengingar.
Auk þess hafi fyrirtækið endurnýjað og stækkað alþjóðlega vottun á sviði upplýsingaöryggis í þá umfangsmestu fjarskiptafyrirtækis á Íslandi. „Það var ánægjulegur áfangi að ná,“ segir hann.
„Árið einkenndist í mínum huga af uppbyggingu,“ segir Stefán. „Fyrirtæki hafa almennt verið að auka fjárfestingu sem var mjög lítil lengi vel eftir 2008. Það er einnig ánægjulegt að sjá mikinn kraft í nýsköpunargeiranum sem ég er viss um að það muni skila jákvæðum áhrifum bæði inn í atvinnulífið og samfélagið allt,“ segir hann.
„Við hjá Vodafone leggjum mikið upp úr samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki. Ég tel það hluta af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja eins og okkar að styðja við og vinna með ungum fyrirtækjum, báðum aðilum til heilla.“
Stefán telur horfur á næsta ári vera góðar og segir flest benda til þess að sá taktur sem var á síðasta ári geti haldið áfram. „Hættumerkin tengjast helst kunnuglegum áhættuþáttum í samspili peningastefnu, gengis og vaxta,“ segir hann.
„Í mínum huga liggur verkefnið í að skapa skýra og trúverðuga langtímastefnu um hvernig við hyggjumst haga peningamálum okkar og hagstjórn þannig að við tryggjum stöðugri skilyrði og frelsi til athafna fyrir fyrirtæki og fjölskyldur í landinu,“ segir hann. „Ég vona að við tökum jákvæð skref í þá átt á árinu 2016.“
Hann segir fulla ástæðu vera til bjartsýni en bendir á að hlutirnir muni ekki gerast að sjálfu sér.
„Það er góð þróun í gangi sem við verðum að halda áfram að nýta til áframhaldandi uppbyggingar. Á sama tíma og við byggjum upp þurfum við að gæta þess að gera ekki hlutina of flókna og þunga í vöfum á okkar litla landi,“ segir hann.
„Fámenn þjóð eins og við Íslendingar verður að hafa umgjörð atvinnulífsins eins einfalda og hægt er til þess að geta verið samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Þarna tel ég mikilvægt og sameiginlegt verkefni atvinnulífsins og hins opinbera.“
„ Ég er annars bjartsýnismaður að eðlisfari og tel þess vegna að 2016 geti orðið frábært fyrir íslenskt samfélag,“ segir Stefán að lokum.