Kauphöllum í Kína var lokað í nótt eftir að verð hlutabréfa lækkaði um rúm 7%. Þetta er annað skiptið í vikunni sem gripið er til þess að loka fyrir viðskipti í kjölfar verðfalls.
Lokað var fyrir viðskiptin aðeins hálftíma eftir að þau hófust en mikill taugatitringur er meðal fjárfesta og er staða júans veik gagnvart helstu gjaldmiðlum heims. Óttast margir um hag annars stærsta hagkerfis heims en ekki eru nema nokkrir mánuðir liðnir frá því milljarðar á milljarða ofan þurrkuðust út í miklu verðfalli á kínverskum fjármálamörkuðum.
Tapið á kínverskum mörkuðum í þessari viku er eitt það mesta í upphafi árs á fjármálamörkuðum heims en á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað mikið og hefur ekki verið lægra í ellefu ár. Eins er spenna víða í samskiptum ríkja, til að mynda í Miðausturlöndum sem gerir líf fjárfesta enn erfiðara en ella.
Fjármálaeftirlitið í Kína lokaði kauphöllunum eftir að seðlabanki landsins PBoC lækkaði virði júans um 0,51% gagnvart Bandaríkjadal. Það er mest gengislækkun júans síðan í ágúst þegar virði júans lækkaði um 5% á einni viku.
Þegar viðskiptum var hætt skömmu fyrir klukkan 10 að staðartíma (klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma) hafði vísitalan í Sjanghaí lækkað um 7,32% og í Shenzhen nam lækkunin 8,35%.
Staðan á fjármálamörkuðum í Kína hefur áhrif langt út fyrir Asíu og þykir líklegt að þetta hafi hafi áhrif bæði í Evrópu og Bandaríkjunum í dag eftir lækkun á þeim mörkuðum í gær. Annars staðar í Asíu lækkuðu allar helstu hlutabréfavísitölur og það sama á við um Ástralíu.
Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2,4% og í Tókýó lækkaði Nikkei vísitalan um 2,2%. Í Sydney nam lækkunin 2% en í Seúl lækkaði Kospi vísitalan aðeins um 0,8%.
Rúmlega 60% lækkun á olíumörkuðum á einu og hálfu ári
Orkufyrirtæki urðu einna verst út eftir að verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði um 6% í gær en verð á olíu hefur ekki verið lægra síðan í júlí 2004. Verð á West Texas Intermediate hráolíu lækkaði um 5,6% og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2008. Það sem af er degi nemur lækkun á olíumörkuðum í Asíu um 2% þessu til viðbótar. Olíuverð fór að lækka í gær eftir að tilkynnt var um að birgðir á eldsneyti hefðu aukist mjög í Bandaríkjunum. En alls hefur verið á olíu lækkað um rúm 60% frá því um mitt ár 2014.