Hlutabréfavísitölur í Kína tóku stefnuna fljótlega upp á við þegar markaðir voru opnaðir þar í morgun. Í gær var kauphöllunum á meginlandi Kína lokað fljótlega eftir að viðskipti hófust eftir að vísitölur höfðu lækkað um meira en 7%.
Í Sjanghaí hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 2,39% en fyrstu mínúturnar eftir að viðskipti hófust í morgun lækkaði hún um 2,18%. Síðan hækkaði hún talsvert, lækkaði og hækkaði síðan á nýjan leik.
Í Shenzhen hefur vísitalan hækkað um 1,65% þar sem af er degi. En í gær þurfti að loka kauphöllunum innan við hálftíma eftir að viðskipti hófust vegna mikillar lækkunar. Á mánudag var mörkuðum einnig lokað vegna lækkunar.
Kínverski gjaldmiðillinn júan hefur einnig hækkað í dag eftir lækkun í gær og hið sama má segja um heimsmarkaðsverð á olíu sem hefur hækkað eftir lækkun síðustu daga.