Bankasýsla ríkisins telur að innlendir fjármálamarkaðir hafi ekki bolmagn til að meðtaka svo stórt útboð sem sala á 28 prósenta hlut í Landsbankanum er.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri stöðuskýrslu Bankasýslu ríkisins um fyrirhugaða sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf.
Þar segir að Bankasýslan telji líklegast á þessari stundu að lögð verði fram tillaga til ráðherra um sölu á allt að 28,2 prósent eignarhlut ríkisins í Landsbankanum með almennu útboði og skráningu hluta á skipulegan verðbréfamarkað.
Þá telur stofnunin ákjósanlegt að ráðast í útgreiðslu á viðeigandi fjárhæð af eigin fé Landsbankans áður en hafist verði handa við sölu á eignarhlutum í bankanum.
Gert er ráð fyrir söluandvirði allt að 30 prósenta eignarhlutar muni nema 71,3 milljörðum króna.
Til samanburðar samsvarar 28,2 prósent hlutur ríkissjóðs í bókfærðu eigin fé hluthafa Landsbankans þann 30. september 2015 71,2 milljörðum króna.
„Ef einungis er litið til þeirrar fjárhæðar sem unnt verður að afla með sölunni, án tillits til verðmats undirliggjandi hlutabréfa, telur Bankasýsla ríkisins að innlendir fjármálamarkaðir hafi ekki bolmagn til að meðtaka svo stórt útboð,“ segir í skýrslunni.
Til að raska ekki framboði á innlendum fjármálamörkuðum telur stofnunin rétt að miða við lægri fjárhæð og hlutdeild í hlutafé bankans við fyrstu sölu á eignarhlut í honum.
Verði hlutir hins vegar boðnir til sölu á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum telur Bankasýsla ríkisins að fyrrnefnd fjárhæð sé ekki of há.
Talið er mikilvægt að halda þessum sjónarmiðum til haga við frekari sölu eignarhluta.
Áður en ráðist er í fyrstu sölu á eignarhlut ríkisins Í Landsbankanum telur stofnunin mikilvægt að stjórnvöld gefi til kynna hversu stórum eignarhlut ríkissjóður eigi að halda á til frambúðar til að minnka óvissu sem fjárfestar kunni að standa frammi fyrir við ákvörðun um kaup á hlutum í Landsbankanum.
Áhyggjur væntanlegra kaupenda gætu snúið að því hvort að þeir verði minnihluta eigendur í félagi andspænis ráðandi hluthafa og hversu mikið væntanlegt framboð geti verið á hlutabréfum inn á markað í náinni framtíð. Slík stefnumörkun um framtíðareignarhald geti haft jákvæð áhrif á verðmat og eftirspurn væntanlegra kaupenda á hlutum í bankanum.
Í skýrslunni segir jafnframt að neikvæð umræða um bankakerfið á síðustu árum gæti dregið úr áhuga á þátttöku í hlutabréfaútboði Landsbankans. Þrátt fyrir að einstaklingar muni hafa eitthvað svigrúm til þátttöku er talið líklegra að hlutdeild fagfjárfesta verði mun meiri.
Í framhaldi af birtingu skýrslunnar mun Bankasýsla ríkisins óska eftir yfirlýsingum um áhuga af hálfu aðila sem vilja starfa með stofnuninni sem ráðgjafar í fyrirhuguðu söluferli og taka fyrstu skref í átt að ráðningu viðeigandi ráðgjafa.
Þá segir að stofnunin sé reiðubúin til þess að kynna efni skýrslunnar fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis við fyrsta tækifæri sem og fulltrúum þingflokka allra stjórnmálaflokka, ef slík beiðni berst.
Gerir Bankasýsla ríkisins ráð fyrir, ef ákvörðun ráðherra um sölumeðferð liggur fyrir vorið 2016, að unnt verði að ljúka sölu á síðari hluta þess árs í samræmi við áherslur ráðherra í fjárlögum fyrir árið 2016.
Hér má lesa stöðuskýrsluna í heild sinni.