„Já, heldur betur,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, aðspurður hvort lokauppgjör Icesave-kröfunnar veki hjá honum gleði. „Þar með lýkur löngum og á köflum leiðinlegum kafla í uppgjöri við fall bankanna,“ segir hann.
„Það hafa verið margir áfangar á þessari leið og þetta er sýnist mér endastöðin,“ segir Bjarni.
Líkt og mbl greindi frá fyrr í dag hefur Seðlabankinn veitt slitabúi gamla Landsbankans undanþágu frá gjaldeyrishöftum.
Í kjölfarið voru allar eftirstæðar forgangskröfur gerðar upp. Stærstan hluta þeirra má rekja til innistæðna sem Landsbanki Íslands safnaði í útibúum sínum í Amsterdam annars vegar og London hins vegar undir vörumerkinu Icesave.
Frétt mbl.is: Icesave greitt að fullu
Nú hafa dómstólar og kröfuhafar samþykkt nauðasamninga slitabúa LBI, Kaupþings og Glitnis Seðlabankinn á hins vegar ennþá eftir að veita þeim tveimur síðarnefndu undanþágu til þess að hægt sé að hefja útgreiðslur til kröfuhafa.
Bjarni segist mjög ánægður með niðurstöðuna. „Það sýndi sig að það þurfti inngrip stjórnvalda á síðasta ári,“ segir Bjarni og vísar til þess að slitabúunum voru settir afarkostir í sumar þegar leiðirnar tvær við uppgjör voru kynntar, þ.e. skattur ef nauðasamningar yrðu ekki kláraðir fyrir áramót. Sá frestur var þó reyndar síðar framlengdur til 15. mars.
„Við höfum undirbúið þetta vel og það þurfti að setja slitabúunum afarkosti ef þeir ætluðu ekki að ljúka nauðasamningsgerðinni,“ segir Bjarni.
„Það var rétt mat og nú er niðurstaða fengin,“ segir hann. „Öll fjármálafyrirtækin fóru leið nauðasamninga og stöðugleikaframlags og það hefur gerst á þeim tíma sem við vonuðumst til.“