Seðlabankinn veitti í gær slitabúi gamla Landsbankans undanþágu frá gjaldeyrishöftum og í kjölfarið voru allar eftirstæðar samþykktar forgangskröfur gerðar upp.
Í tilkynningu á heimasíðu slitastjórnarinnar segir að greiðslan hafi alls numið 210,6 milljörðum króna og var hún greidd í þremur gjaldmiðlum; evrum, dollurum og pundum.
Þessar forgangsköfur mátti að mestu leyti rekja til innistæðna sem Landsbanki Íslands safnaði í útibúum sínum í Amsterdam annars vegar og London hins vegar undir vörumerkinu Icesave.
Kröfuhafar LBI samþykktu í lok nóvember nauðasamning slitabúsins og um miðjan desember veitti Héraðsdómur Reykjavíkur sitt samþykki.
Í lok september náðu Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, Hollenski seðlabankinn og Breski innstæðutryggingasjóðurinn samningum um lokauppgjör Icesave. Samningurinn fól í sér að TIF greiddi mótaðilum sínum samtals 20 milljarða íslenskra króna. Fjárhæðin var greidd með hluta þeirra fjármuna sem voru þegar til staðar í B deild tryggingasjóðsins.