Efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands hér á landi geta orðið umtalsverð. Hins vegar þarf að hafa í huga að samdráttur ríkir í efnahagsmálum Rússlands og kaupmáttur fer þar minnkandi.
Of snemmt er að segja til um áhrif mótvægisaðgerða íslenskra stjórnvalda.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem fyrirtækið Reykjavik Economics vann um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni.
Skýrslan var unnin að beiðni samráðshóps stjórnvalda og hagsmunasamtaka á Rússlandsmarkaði, en í honum sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í skýrslunni segir að viðskiptaþvinganir hafi jafnan meiri áhrif á lítil og opin hagkerfi en þau sem eru stærri og fjölbreyttari. Smáþjóðir, þar sem atvinnumöguleikar eru tiltölulega fábreyttir, verða verst úti.
Reykjavík Economics setti upp nokkrar sviðsmyndir til þess að reikna út möguleg áhrif viðskiptabannsins.
Þar kemur fram að tapið nemur allt frá tveimur til rúmlega átján milljarða króna en það fer eftir lengd tímabilsins, útflutningsvexti og áætlaðri hlutdeild rússneska markaðarins.
Ef miðað er við að Rússlandsmarkaðurinn sé tíu prósent af heildarútflutningi Íslands á sjávarafurðum, að bannið vari í eitt ár og að eitt prósentútflutningsvöxtur sé á tímabilinu er tapið í lágmarki og nemur tveimur milljörðum króna.
Ef hins vegar miðað er við að hlutdeild Rússlandsmarkaðarins sé þrjátíu prósent, að bannið vari í þrjú ár og að útflutningsvöxturinn á tímabilinu sé þrjú prósent nemur tapið 18,2 milljörðum króna.
Líkt og áður segir er þó settur fyrirvari við útreikningana vegna versnandi efnahagsástands í Rússlandi.
T.a.m. var verðmæti útflutnings á íslenskum afurðum til Rússlands um fjörutíu prósent lægra á fyrri helmingi árs 2015 en á sama tímabili 2014.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 nam útflutningsverðmæti til Rússlands rúmum sjö milljörðum króna en verðmæti varnings á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 nam rúmum ellefu milljörðum króna.