Eldur í nýju húsnæði Omnom

Kjartan Gíslason, einn eiganda Omnom.
Kjartan Gíslason, einn eiganda Omnom. mbl.is/Alfons Finnsson

Nýtt húsnæði súkkulaðigerðarinnar Omnom að Hólmaslóð 4 varð eldi að bráð í gær. Húsnæðið er á tveimur hæðum og verður fyrirhuguð verksmiðja á þeirri neðri en verslun á efri hæðinni. Eldurinn hélt sig á efri hæð og betur fór en á horfðist að sögn eiganda.

Til stendur að opna verksmiðjuna eftir um það bil tvo mánuði en hún verður mun afkastameiri en núverandi verksmiðja við Austurströnd. Framkvæmdir eru þó ekki mjög langt á veg komnar og ekki er búið að flytja vélar eða áhöld. 

Að sögn Kjartans Gíslasonar, eins eiganda Omnom, er einungis búið að leggja rafmagn og setja upp veggi á neðri hæð og engar innréttingar eru komnar í verslunina á efri hæð. 

Hann segir eitthvað vatn hafa lekið niður á neðri hæðina en að öðru leyti slapp hún. Ekki er búið að leggja mat á umfang tjónsins á efri hæðinni.

„Mér skilst að þetta sé ekkert verulegt en það á eftir að fara betur yfir þetta í dag,“ segir Kjartan.

Hann segir fréttir af brunanum hafa verið áfall þar sem framkvæmdir hafa verið á fullu í nokkrar vikur. „Ég hugsa þó að þetta muni ekkert tefja framkvæmdirnar,“ segir hann. 

„Efri hæðin leit frekar illa út. Það var búið að brjóta rúðuna og allt var svart þarna inni,“ segir hann.

Stefnt er á að opna verslunina á svipuðum tíma og verksmiðjuna. „Það verður allavega fyrir sumarið. En við þurfum að vera komnir með framleiðsluna inn áður en við getum opnað,“ segir hann. 

Kjartan hrósar þá slökkviliðinu sem hann segir hafa brugðist hratt við. „Þeir voru mættir innan tveggja til þriggja mínútna og brugðust mjög vel við þessu.“

Frétt mbl.is: Báðir eldarnir slökktir

Frétt mbl.is: Eldur að Hólmaslóð 4

Rúður voru brotnar í húsnæði verslunar Omnom á efri hæð …
Rúður voru brotnar í húsnæði verslunar Omnom á efri hæð Hólmaslóðar 4. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK