Verðbólgan á síðasta ári var sú lægsta í yfir 20 ár og ef spá Capacent gengur eftir um 0,8 prósent lækkun vísitölu neysluverðs í janúar lækkar 12 mánaða verðbólgan úr tveimur prósentum í 1,9 prósent.
Verðbólga síðasta árs var 1,6 prósent að meðaltali og þarf að fara aftur til ársins 1994 til að finna lægri verðbólgu. Á síðustu 60 árum hefur hefur verðbólgan tvisvar verið lægri, árið 1994 er verðbólgan var 1,5 prósent og árið 1959 er verðbólgan var 1,3 prósent.
Þetta kemur fram í verðbólguspá Capacent fyrir janúarmánuð. Hinar árlegu vetrarútsölur munu að líkum vega þungt í verðmælingunni í janúar. Gert er ráð fyrir rúmlega 17,5 prósent verðlækkun á fatnaði að þessu sinni og myndi það hafa 0,84 prósent lækkunaráhrif á vísitölu neysluverð.
Framangreind lækkun á fatnaði er þó litlu meiri en vanalega en talið er að afnám tolla af fatnaði muni koma inn af meiri þunga í verð fatnaðar við útsölulok þar sem nýjar vörur koma í hillurnar eftir jólin.
Auk fataútsala eru útsölur á húsbúnaði, raftækjum og húsgögnum alla jafna á þessum árstíma og er gert ráð fyrir að áhrif þeirra á vnv nemi um 0,1 prósent.
Tunnan af hráolíu er komin niður fyrir 31 dollar og hefur verðið lækkað um 20 prósent frá því um miðjan desember.
Verð á eldsneyti hefur staðið í stað frá miðjum desember og hefur lækkun olíuverðs komið í veg fyrir hækkun eldsneytisverðs vegna aukinna álaga ríkisins. Capacent gerir ráð fyrir lítilsháttar lækkun eldsneytisverðs á næstu dögum sem hefur 0,04 prósent áhrif á vnv til lækkunar.
Könnun Capacent á flugfargjöldum bendir til að lækkun flugfargjalda eftir hátíðarnar sé öllu minni en verið hefur. Á móti kemur að hækkun flugfargjalda fyrir jól var minni en venjulega. Könnun Capacent bendir til um fimm prósent lækkunar sem hefur 0,08 prósent áhrif á vnv til lækkunar.
Þá segir að hækkun fasteignaverðs hafi komið í veg fyrir algjört hrun vísitölunnar. Gert er ráð fyrir að hækkun húsnæðisliða hafi um 0,15 prósent áhrif á vnv til hækkunar.
Almennar verðskrárhækkanir eru algengar á þessum árstíma. Þar má t.d. nefna hækkanir á tómstundum, líkamsrækt og annarri þjónustu líkt og tryggingum. Hver hækkun vegur sáralítið en samantekið er gert ráð fyrir að framangreindar hækkanir hafi 0,1 prósent áhrif á vnv til hækkunar.