Það vakti mikla athygli í Bandaríkjunum þegar WOW air hóf að bjóða upp á ódýrar flugferðir til Íslands og Evrópu. Aðeins 99 dollarar til Íslands og 199 dollarar til Evrópu. Einhverjir hafa þó bent á að þetta standist ekki alveg.
Blaðamaður Buzzfeed segist hafa stokkið á miðana þegar þeir fóru í sölu og bendir á að fáheyrt sé að fá miða til Evrópu í júní sem kosta svo lítið.
Hún áttaði sig hins vegar fljótlega á að ýmis falin gjöld eru innifalin. „Þetta þýðir að þú greiðir að lokum meira fyrir hvert atriði.“
Blaðamaðurinn fann flug frá San Fransisco til Frankfurt fyrir 199 dollara. Tilboðið var hins vegar einungis í boði aðra leið. Ekki var hægt að fá flug sem kostaði undir 400 dollurum til baka.
Flug til Evrópu og til baka á rúma 600 dollara, eða tæpar 80 þúsund krónur, segir hún ekki vera það ódýrasta í boði.
Þá bendir hún á að handfarangur, sem er þyngri en fimm kílógrömm, kostar 57 dollara hvora leið. Innritaður farangur kostar 76 dollara. Farir þú með töskurnar báðar leiðir kostar það annað hvort 114 eða 152 dollara aukalega. Þar bættust 15 til 20 þúsund krónur við verðið.
Auk þess bendir hún á að allt frá 7 til 48 dollara gjald sé tekið fyrir að velja sæti.
„Þú getur endað með því að eyða nærri eitt þúsund dollurum í flug sem átti einungis að kosta nokkur hundruð dollara.“
Fleiri miðlar hafa birt svipaðar fréttir og má þar t.d. nefna fréttasíðuna Brit en segir blaðamaður að ódýarsti pakkinn frá London San Fransisco hafi verið á 1.240 dollara.