Enn frekari lækkanir voru í Kauphöllinni í dag. Hlutabréf allra félaga, utan Össurar sem stóðu í stað, lækkuðu. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,72 prósent.
Mesta lækkunin var hjá Icelandair Group en bréf fyrirtækisins lækkuðu um 3,69 prósent í tæplega 1,4 milljarða króna viðskiptum.
Bréf N1 lækkuðu næstmest, eða um 2,87 prósent, í 263 milljóna króna viðskiptum.
Líkt og áður segir stóðu bréf Össurar í stað en þess fyrir utan var minnsta lækkunin hjá Högum en bréf félagsins lækkuðu um 0,98 prósent.
Markaðir víða um heim lækkuðu í dag en Dow Jones vísitala féll t.a.m. um 2,26 prósent og breska vísitalan FTSE 100 lækkaði um 2,11 prósent. Þá voru einnig lækkanir í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki.
Lækkanir má m.a rekja til lækkana á kínverskum marköðum og verðfalls á olíu- og hrávöru.