Héðan í frá munu einungis viðskiptavinir sem eru 67 ára og eldri fá álagningarseðil í bréfpósti frá Veitum, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Á næstu árum verður bréfasendingum með álagningarseðlum alveg hætt.
Langflestir álagningarseðlar vegna vatns- og fráveitugjalda verða því sendir út rafrænt og munu þeir birtast í heimabönkum viðskiptavina og á Mínum síðum Veitna.
Greiðslum er dreift á níu mánuði ársins, þar sem engin greiðsla er í janúar, nóvember og desember.
Á árinu 2011 var álagning vatns- og fráveitugjalda hjá Veitum skilin frá álagningu fasteignagjalda sveitarfélaganna og er heildarfjöldi álagningarseðla er um 70 þúsund. Álagningarseðlar sem sendir eru í bréfpósti eru um 12.700 talsins.
Veitur reka vatnsveitur í Reykjavík, á Akranesi, í Borgarnesi, á Álftanesi og í Stykkishólmi og Grundarfirði auk nokkurra smærri byggðakjarna í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi.
Fráveitur Veitna eru í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Vatns- og fráveitugjöldin hjá Veitum fylgja byggingavísitölu en ekki fasteignamati eins og algengt er. Hækkun hennar á árinu 2015 var 6,04 prósent.
Í tilkynningu frá Veitum er bent á að unnið hafi verið að mikilli uppbyggingu fráveitna á Akranesi, í Borgarbyggð og á Kjalarnesi í Reykjavík síðasta áratuginn.
Markmiðið er að koma fráveitumálum í það horf að þau standist opinberar kröfur. Verkefnið felur í sér lagningu nýrra stofnræsa og sjólagna, byggingu dælu- og hreinsistöðva auk fjögurra lífrænna hreinsistöðva í uppsveitum Borgarfjarðar, sem allar eru komnar í notkun.
Frestur var gerður á framkvæmdum í mars 2011 með samþykkt Plansins, aðgerðaáætlunar í fjármálum OR. Á
árinu 2015 var þráðurinn hins vegar tekinn upp að nýju og framkvæmdum á að ljúka fyrir árslok 2016. Meðan á frestinum stóð var viðskiptavinum í Borgarbyggð, þar sem verð er hærra en í Reykjavík og á Akranesi, veittur tímabundinn afsláttur af fráveitugjöldum. Hann féll niður nú um áramótin.