Greiningardeild Royal Bank of Scotland vakti mikla athygli í vikunni þegar hún sagði fjárfestum að selja allt og hlaupa í skjól. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, er efins um þessa um þessa spá og segir erfitt að sjá fyrir allsherjarhrun á íslenska markaðnum.
Markaðurinn gæti hins vegar verið að taka út einhverja leiðréttingu eftir skarpar hækkanir á síðasta ári. Greiningardeild RBS vísaði til örlagaársins 2008 og sagði sömu teikn á lofti. Ásgeir segir aðstæður á íslenska hlutabréfamarkaðnum vera allt aðrar en þá.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjárfestum hefur verið ráðlagt að selja allt né heldur að janúar byrji illa á hlutabréfamörkuðum.
Þann 7. janúar árið 1981 sendi einn frægasti greinandi Bandaríkjanna, Joseph Granville, skeyti til viðskiptavina sinna um miðja nótt. Í skeytinu voru einungis tvö orð: „Seljið allt!“.
Dagurinn á eftir var sá stærsti í sögu Kauphallarinnar í New York fram til þessa. Hlutabréfaverð féll verulega í kjölfarið en rétti svo aftur úr sér. Á eftir fylgdu síðan nokkur ár með miklum hækkunum.
Er það mál manna að þessi spá Granville sé ein sú versta í sögu hlutabréfamarkaðarins þar vestra.
Líkt og fyrr segir telur Ásgeir stöðuna ekki þá sömu og hún var árið 2008. „Þá vorum við aðallega með fjármálafyrirtæki skráð á markað og bæði félögin sjálf og eigendur þeirra voru mjög skuldsett,“ segir hann.
„Í dag eru þetta allt saman rekstrarfélög, sem eru tiltölulega lítið skuldsett, flest eru að greiða mikinn arð og með sterkt eigið fé. Mörg þeirra eru einnig í frekar stöðugum rekstri innanlands. Það táknar vitaskuld ekki að einstök félög geti ekki bæði hækkað eða lækkað og fjárfestar geti bæði hagnast og tapað, en það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að markaðurinn í heild sinni verði fyrir kollsteypu.“
Ásgeir telur einnig óþarfi að hafa áhyggjur af mögulegu brotthvarfi lífeyrissjóðanna af íslenska markaðnum með auknum erlendum fjárfestingaheimildum. Sjóðirnir eigi einfaldlega það mikið laust fé.
Hann bendir einnig á að ef ríkissjóður notar stöðugleikaframlögin frá slitabúunum til þess að greiða upp skuldir þá séu lífeyrissjóðirnir stærstu eigendur ríkistryggðra bréfa og munu fá stórar fúlgur að lausu fé.
„Í dag eiga sjóðirnir um tuttugu til fjörtíu prósent í öllum skráðum félögum og eiga erfitt með að bæta miklu við sig en ég sé ekki að þeir hafi neina sérstaka þörf til þess að draga sig þaðan út vegna annarra fjárfestinga, enda er íslenski hlutabréfamarkaðurinn í sjálfu sér smár og eign sjóðanna þar lítill hluti af heildareignasafni sjóðanna,“ segir Ásgeir. „Lífeyrissjóðirnir ættu einnig að geta tekið hlut í einum eða fleiri bönkum án þess að það skapi neina knýjandi söluþörf á hlutabréfamarkaði.“
Hann bendir á að Ísland sé einnig tiltölulega einangrað í höftum þar sem fjármagnið er lokað inni og þannig séu áhrif af erlendum verðhræringum takmörkuð hérlendis. „Aðstæður í íslenska hagkerfinu eru frekar góðar og útlit er fyrir áframhaldandi vöxt svo lengi sem túristarnir halda áfram að koma. Lægra olíuverð gagnast mörgum fyrirtækjum einnig vel,“ segir hann og nefnir Icelandair og útvegsfyrirtækin sem dæmi.
„Hins vegar hækkuðu markaðir verulega á síðasta ári og einhver félög, eins og Marel, eru háð velgengni á erlendum mörkuðum,“ segir hann. „Þær raddir heyrast nú á markaðinum hér að einhver félög hafi hækkað mikið á síðasta ári og því sé alls ekki óeðlilegt að sjá einhverja leiðréttingu.“
Úrvalsvísitalan hækkaði um 43 prósent á síðasta ári og ef arðgreiðslur eru teknar með nemur ávöxtunin um eða yfir 48 prósentum. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna viðlíka hækkun en þá hækkaði úrvalsvísitalan um 64,7 prósent.
Frétt mbl.is: Sjö til átta félög á markað 2016?
Þegar litið er út fyrir landsteinana segir Ásgeir að margir hlutir séu að gerast samtímis, sem hafi bæði jákvæð og neikvæð áhrif. „Lækkun á olíu og hrávöru hvetur nánast öll vestræn hagkerfi utan Noregs og Ástralíu,“ segir Ásgeir.
Hann segir horfur í Evrópu og Bandaríkjunum tiltölulega góðar. „Á sama tíma hefur hins vegar verið fylgt þeirri efnahagsstefnu að prenta peninga og halda stýrivöxtum í núlli sem án efa hefur ýtt undir miklar hækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu árum. Þannig er eðlilegt að efasemdir vakni um að verðlagningin haldi,“ segir hann.
„Hins vegar bendir ekkert til þess að peningastefnan sé eitthvað að fara að breytast að ráði á næstu árum þannig að áfram má búast við lágum vöxtum og miklu lausafé frá seðlabönkum.
Í hamfaraspá RBS var bent á að slæm staða á mörkuðum í Kína væri mikið áhyggjuefni. „Að mörgu leyti vitum við ekkert hvað er í gangi þar. Ljóst er að eftir áratuga ofurvöxt óttast margir að veruleg fjármálabóla sé nú að springa þar eystra og við munum sjá stækkaða útgáfu af asíukrísunni 1998,“ segir Ásgeir og vísar til þess að ógagnsæið sé mikið. „Það veldur í sjálfu sér gríðarlegum ótta.“
Ásgeir segir mögulegt að kínverski gjaldmiðillinn muni falla í verði með tilheyrandi áhrifum á nýmarkaðslönd í kring. „Á móti kemur að á síðustu árum hafa peningar verið að flýja úr þessum nýmarkaðshagkerfum og til Bandaríkjanna og Evrópu og það eru margir sem álíta að evrópskir markaðir eigi töluvert inni miðað við stöðuna þar,“ segir Ásgeir.